Inga Lára Lárusdóttir

Inga Lára Lárusdóttir (fædd 23. september 1883, dáin 7. nóvember 1949) var kennari, bæjarfulltrúi í Reykjavík, ritstjóri og útgefandi tímaritsins 19. júní og ein helsta baráttukona fyrir réttindum kvenna á fyrri hluta 20. aldar.

Inga Lára var fædd í Selárdal í Dalahreppi í Vestur-Barðastrandasýslu. Foreldrar hennar voru hjónin Ólafía Sigríður Ólafsdóttir og sr. Lárus Benediktsson prestur í Selárdal og var Inga Lára elst fimm systkina.

Nám og störf

breyta

Hún nam við Kvennaskólann í Reykjavík veturinn 1902-1903 en stundaði nám í Danmörku og Svíþjóð á árunum 1904-1907. Veturinn 1910-1911 lærði hún hannyrðir í Svíþjóð. Inga Lára var kennari við Barnaskóla Reykjavíkur frá 1907-1917 og kenndi við Kvennaskólann í Reykjavík frá árinu 1921. Árið 1917 stofnaði Inga Lára tímaritið 19. júní sem hún ritstýrði og gaf út mánaðarlega samfleytt til ársins 1929. Inga Lára sat í bæjarstjórn Reykjavíkur frá 1918-1922 og sat í fátækranefnd, leikvallanefnd og dýrtíðarnefnd. Inga Lára sinnti fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum. Hún var ein af af stofnendum Lestrafélags kvenna árið 1911 og Heimilisiðnaðarfélags Íslands árið 1913. Hún sat um tíma í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, var um skeið formaður Bandalags kvenna og starfaði einnig innan Kvenréttindafélags Íslands og sat í stjórn þess árið 1912-1913. Inga Lára vann einnig ötullega að Landspítalamálinu svokallaða, var mikil baráttukona fyrir byggingu nýs spítala og var formaður Landspítalasjóðs frá 1941-1949. Hún tók virkan þátt í alþjóðastarfi kvenfélaga og sótti t.d. fund alþjóðasambands kosningaréttarfélaga í Stokkhólmi árið 1911 fyrir Kvenréttindafélagið og fundi International Congress of Women í Osló árið 1920 og í Washington árið 1925 sem fulltrúi Bandalags kvenna.[1][2]

Ítarefni

breyta

Hrafnhildur Ragnarsdóttir, „Hver var hún?“, Sagnir, 1. tbl. 24. árg. 2004

Tilvísanir

breyta


  1. Kvennasögusafn.is, „Inga Lára Lárusdóttir“ (skoðað 20. júní 2019)
  2. Konur og stjórnmál, „Inga Lára Lárusdóttir“ (skoðað 20. júní 2019)