Ibrahim Baré Maïnassara

Ibrahim Baré Maïnassara ofursti (9. maí, 19499. apríl, 1999) var forseti Níger í kjölfar valdaránsins 1996 þar til hann var ráðinn af dögum í valdaráninu 1999. Hann varð yfirmaður heraflans 1995 og framdi valdarán 27. janúar 1996 eftir að átök milli forsetans Mahamane Ousmane og forsætisráðherrans Hama Amadou höfðu lamað stjórn landsins. Í valdatíð hans var ný stjórnarskrá samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu og forsetakosningar boðaðar í júlí 1996 sem hann vann með 52% atkvæða, en kosningarnar voru almennt taldar svindl. Í sveitarstjórnarkosningum 1999 vann stjórnarandstaðan meirihluta en hæstiréttur ógilti úrslitin á mörgum stöðum og fyrirskipaði endurkosningu. Þetta leiddi til víðtækra mótmæla. Þann 9. apríl 1999 var Maïnassara skotinn þar sem hann var að stíga um borð í þyrlu á herflugvelli. Hugsanlega hafa banamenn hans verið úr lífverði forsetans. Daouda Malam Wanké majór tók við forsetaembætti.


Fyrirrennari:
Mahamane Ousmane
Forseti Níger
(1996 – 1999)
Eftirmaður:
Daouda Malam Wanké