Hveravellir er jarðhitasvæði í um það bil 650 metra hæð á hálendi Íslands og jafnframt algengur áningarstaður þegar ferðast er um Kjöl. Elstu lýsingar af staðnum eru frá 1752 þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson rituðu um hann í ferðabók sinni. Þeir lýsa hverum og sérstaka athygli þeirra vakti hver sem Eggert kallaði Öskurhól vegna druna og blísturshljóða sem úr honum komu. Mikil og litfögur hverahrúður eru á Hveravöllum.

Hveravellir
Hveravellir um 1900.

Um 12 tíma reið er frá Mælifelli í Skagafirði á Hveravelli og álíka langt neðan úr byggð á Suðurlandi. Á Hveravöllum bjó Fjalla-Eyvindur og Halla kona hans þegar þau voru í útlegð. Sjást þar ýmsar minjar eftir búsetu þeirra, svo sem rúst af Eyvindarkofa og í hver einum sjást mannvirki sem virðast hafa verið notuð til suðu matvæla.

Sæluhús var byggt á Hveravöllum árið 1922 á fornum sæluhúsrústum. Það er úr torfi og grjóti og var endurhlaðið 1994. Ferðafélag Íslands reisti sæluhús á Hveravöllum árið 1938 og er það eitt af fáum sæluhúsum á landinu sem hituð eru með hveravatni. Nýtt hús var reist árið 1980 og nýtast bæði húsin ferðamönnum.

Veðurstofa Íslands hóf að reka mannaða veðurathugunarstöð á Hveravöllum árið 1965 og bjó þar fólk allt fram á 21. öld þegar mannaða stöðin var lögð niður og tekin upp sjálfvirkni í staðinn.

Háhitasvæðið

breyta

Hveravellir eru eitt af háhitasvæðum landsins en þau eru um 30 talsins.[1] Aðalhverasvæðið er við norðurjaðar Kjalhrauns. Hverirnir eru allfjölbreyttir að gerð, goshverir, gufuhverir, leirhverir, suðuhverir, vatnshverir, laugar og volgrur. Margir þeirra bera nöfn svo sem Öskurhóll, Bláhver, Rauðihver, Eyvindarhver o.fl. [2][3] Goshverirnir sem eru virkir í dag gjósa einungis óreglulegum smágosum. Útfellingar eru áberandi, hverahrúður og kísilbungur, og segja má að þær einkenni svæðið. Á Breiðamel norður af völlunum eru gufuhverir þar sem menn hafa útbúið bakstursholur og seytt rúgbrauð og þar norður af eru ummyndunarskellur, hveraleir, laugar og volgrur. Um þremur kílómetrum norðar, við lækinn Þegjanda, er nyrsti suðuhverinn, Einbúi, en síðan verður vart við volgrur áfram til norðurs um Beljandatungur og allt að Kúlukvísl. Höggun bendir til tengsla háhitasvæðisins við Kjalhraunsdyngjuna. [4]

Aðrir Hveravellir eru í Reykjahverfi (Norðurlandi eystra).[5] Þar er garðyrkjustöð og hefur verið síðan 1933.

Tilvísanir

breyta
  1. Halldór Ármannsson, 2016. The fluid geochemistry of Icelandic high temperature geothermal areas. Applied Geochemistry 66, 14-64
  2. Arnór Karlsson 2001: Kjölur og kjalverðir. Árbók Ferðafélags Íslands 2001,. (Ritstj. Hjalti Kristgeirsson), Reykjavík, 7–183.
  3. Helgi Torfason, 1997. Jarðhitarannsóknir á Hveravöllum 1996. Orkustofnun, OS-97025, 85 bls. + 1 kort
  4. Árni Hjartarson og Magnús Ólafsson 2005. Hveravellir. Könnun og kortlagning háhitasvæðis. ÍSOR-2005/014, 44 bls. + kort
  5. „Hveravellir í Reykjahverfi - NAT ferðavísir“. Sótt 9. desember 2021.

Heimildir

breyta