Hreinn Styrmisson (d. 1171) var íslenskur prestur og síðar ábóti í Þingeyraklaustri, að öllum líkindum hinn þriðji í röðinni, og tók sennilega við þegar Ásgrímur Vestliðason1161. Hreinn var þó ekki vígður fyrr en 1166 en hefur að líkindum verið starfandi ábóti fram að því.

Hreinn var af Gilsbakkaætt, sonur Styrmis Hreinssonar goðorðsmanns á Gilsbakka, og hefur Gunnlaugur ormstunga því verið langafabróðir hans. Móðir hans var Guðrún Snorradóttir Halldórssonar Snorrasonar goða. Hreinn ólst upp á Hólum hjá Jóni Ögmundssyni biskupi og hlaut menntun í skóla hans; Gunnlaugur Leifsson munkur getur hans sem eins af þeim lærisveina Jóns sem hann hafi séð með eigin augum.

Hreinn fór þó ekki beint í klaustur, heldur tók prestvígslu og kvæntist, eins og prestum var þá heimilt, og var kona hans Hallbera, dóttir Hrafns Úlfhéðinssonar lögsögumanns og systir Halls Hrafnssonar ábóta á Munkaþverá. Dætur þeirra voru Valdís, kona Magnúar Þorlákssonar á Melum og langamma Snorra Markússonar lögmanns, og Þorbjörg, frilla Gissurar Hallssonar, en þau voru of skyld til að mega giftast.

Hreinn gekk í Þingeyraklaustur eftir að kona hans lést og varð ábóti þar. Karl Jónsson varð ábóti 1169 og hefur Hreinn því sagt af sér nokkru áður en hann lést.

Heimildir

breyta
  • „„Þingeyraklaustur". Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur, 1887“.
  • „„Um Hólaskóla hinn forna". Lesbók Morgunblaðsins, 19. febrúar 1994“.