Hliðum Keflavíkurflugvallar lokað

Lokun hliða Keflavíkurflugvallar var mótmælaaðgerð sem herstöðvaandstæðingar stóðu fyrir þann 13. mars árið 1976 til að mótmæla bandarískri hersetu á Íslandi, aðild Íslands að Atlantshafbandalaginu og framferði Breta í þorskastríðunum. Öllum sex hliðum herstöðvarinnar var lokað frá því snemma morguns og til kl. 15:30 síðdegis. Að því loknu var efnt til baráttufundar í samkomuhúsinu Stapa í Keflavík

Aðdragandi og skipulag

breyta

Lokanir herstöðvarhliðanna voru skipulagðar í nafni herstöðvaandstæðinga á Suðurnesjum. Söfnuðust mótmælendur saman í Keflavík á sjötta tímanum um morguninn og skiptu sér þar á bíla. Nokkurra manna hópar voru sendir að hliðunum og afhentu þar fulltrúum lögreglunnar tilkynningu um að hliðunum væri lokað fyrir annarri umferð en neyðaraksturs og gangandi vegfarenda.[1] Fáeinum dögum fyrr höfðu útvegsmenn á Suðurnesjum efnt til svipaðra aðgerða við hlið herstöðvarinnar nærri Grindavík til að mótmæla framferði Nató-ríkisins Breta í landhelgisdeilunni.

Ekki kom til átaka í tengslum við lokunina. Flugfarþegar á leið til og frá vellinum þurftu hins vegar að fara fótgangandi um hliðið og bera töskur sínar.[2] Að sögn Dagblaðsins varð helsta röskunin sú að mjólkurflutningar inn á herstöðvasvæðið hafi ekki fengist heimilaðir.[3]

Fjölmenni mætti á samkomu herstöðvaandstæðinga í Stapa að mótmælum loknum, þar sem fluttar voru ræður og tónlistaratriði.

Tilvísanir

breyta
  1. „Herstöð lokað“, Dagfari, 30. mars 1976 ([1])
  2. „Velheppnaðar aðgerðir herstöðvaandstæðinga“, Þjóðviljinn, 16. mars 1976 ([2])
  3. „Rólegt við hlið Keflavíkurflugvallar á laugardaginn“, Dagblaðið, 15. mars 1976 ([3])