Keflavíkurstöðin (enska Naval Air Station Keflavik, í daglegu tali kölluð „Keflavíkurflugvöllur“ eða „Völlurinn“) var herstöð Bandaríkjahers og Atlantshafsbandalagsins (NATO) á Miðnesheiði, við Keflavíkurflugvöll. Herstöðin var tekin í notkun eftir að Íslendingar og Bandaríkjamenn gerðu tvíhliða varnarsamning árið 1951. Eftir lok Kalda stríðsins fækkaði hermönnum á stöðinni jafnt og þétt þar til að Bandaríkjamenn yfirgáfu formlega stöðina í lok september 2006. Þá hafði stöðin verið rekin í 55 ár. Í dag nefnist svæðið Ásbrú og þar starfar Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs.

Flugskýli Keflavíkurstöðvarinnar. Í bakgrunn sést til Keflavíkur. (Mynd tekin árið 1982)

Herstöðin var reist 1951 af Bandaríkjaher, rekin af Bandaríkjaflota, sem flugbækistöð frá árinu 1961. Þegar mest var töldu hermenn, starfslið hersins og hinna ýmsu stofnana á stöðinni og fjölskyldur þeirra um 5.700 manns.[1] Að auki dvöldust þar oft hópar hermanna tímabundið til æfinga eða vegna flutninga. Á herstöðinni voru, auk íbúðarhúsa og hernaðarmannvirkja, verslanir, skólar, sjúkrahús, kvikmyndahús, íþróttahús, skemmtistaðir og allt það sem þurfti til að þjónusta íbúana.

Mikil andstaða var jafnan við herstöðina og þá starfsemi sem þar fór fram. Samtök hernámsandstæðinga og síðar Samtök herstöðvaandstæðinga og fleiri friðarhreyfingar stóðu fyrir tíðum mótmælaaðgerðum gegn veru bandaríska hersins á Íslandi. Kunnustu aðgerðirnar voru hinar svokölluðu Keflavíkurgöngur. Stuðningsmenn varnarsamningsins við Bandaríkin höfðu einnig með sér öflug samtök, Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg, og héldu þau uppi kynningarstarfsemi, aðallega með fundum og fræðsluferðum til aðalstöðva Atlantshafsbandalagsins í Brüssel, ráðuneyta utanríkis- og varnarmála í Washington-borg og herstöðvarinnar í Norfolk í Virginíu.

Eftir lok Kalda stríðsins var ljóst að hernaðarlegt mikilvægi stöðvarinnar var snöggtum minna en áður og fljótlega eftir 1990 hófust umræður um að stöðinni yrði lokað eða dregið verulega úr starfsemi hennar. Í miðju Íraksstríðinu þar sem mjög reyndi á styrk Bandaríkjahers var síðan tekin ákvörðun um að loka herstöðinni endanlega. 30. september 2006 var íslenskum stjórnvöldum formlega afhent stöðin af síðasta yfirmanni hennar, Mark S. Laughton kafteini í Bandaríkjaflota.

Ný not af svæðinu

breyta

Í framhaldinu var rætt um varnarsvæðið, og var þar átt við stöðina og nærliggjandi svæði með byggingum og þeirri aðstöðu sem þar bauðst, og hvernig best væri að nýta það.[2] Í október 2006 var Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar stofnað. Formaður félagsins var Páll Sigurjónsson en aðrir í stjórn voru Reynir Ólafsson og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Varamenn voru Hildur Árnadóttir, Sveindís Valdimarsdóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði. Félaginu var gert að skipuleggja varnarsvæðið þannig að hægt væri að selja og leigja húsnæðið á svæðinu.[3]

Í byrjun árs 2007 bárust fregnir af því að 106 íbúðir hefðu orðið fyrir skemmdum vegna vatnsleka. Þetta gerðist í nóvember, á þeim tíma sem rekstur húsnæðisins var í höndum utanríkisráðuneytisins. Þjónustusamningur um að fjármálaráðuneytið myndi taka við rekstrinum var undirritaður í byrjun desember.[4]

Í apríl 2009 var varnarsvæðinu, ásamt mannvirkjum hersins, gefið nafnið Ásbrú.

Myndefni

breyta

Tengt efni

breyta

Heimildir

breyta
  1. „Herstöðin á miðnesheiði“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. júlí 2012. Sótt 6. júní 2011.
  2. „Mikil tækifæri til uppbyggingar á varnarsvæðinu að mati forsætisráðherra“. Sótt 28. janúar 2006.
  3. „Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar stofnað“. Sótt 28. janúar 2006.
  4. „106 íbúðir skemmdust í vatnsleka á Keflavíkurflugvelli í nóvember“. Sótt 28. janúar 2006.

Tenglar

breyta