Hitaveita Suðurnesja
Hitaveita Suðurnesja var hlutafélag í eigu sex sveitarfélaga á Suðurnesjum, auk Geysis Green Energy og Orkuveitu Reykjavíkur. Stærsti hluthafinn er Reykjanesbær. Fyrirtækið var stofnað um nýtingu jarðhita á Suðurnesjum árið 1974, en áður höfðu sveitarfélögin í tvo áratugi rannsakað möguleika jarðhita á svæðinu. Hitaveitan rekur nú tvær jarðvarmavirkjanir: Svartsengisvirkjun og Reykjanesvirkjun.
Helsta verkefni hitaveitunnar var frá upphafi smíði orkuvers við Svartsengi þar sem vatnið sem upp kemur er salt og því ekki hægt að nýta beint eins og þá var gert í Reykjavík heldur verður að notast við varmaskipti. Fyrsta varmaskiptastöðin var tekin í notkun 1976 og var heitu vatni þaðan hleypt á hús í Grindavík 6. nóvember 1976.
Í maí 2008 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði. Samkvæmt lögunum bar Hitaveitu Suðurnesja hf. að aðskilja formlega í sérstökum félögum einkaleyfisstarfsemi og samkeppnisstarfsemi. Hitaveitu Suðurnesja hf var skipt upp í tvö sjálfstæð fyrirtæki, HS Veitur hf sem annast dreifingu á rafmagni, hitaveitu og ferskvatni og HS Orka hf annast orkuframleiðslu og raforkusölu. Lögformlegur aðskilnaður HS Orku hf. og HS Veitna hf. miðast við 1. júlí 2008.
Tenglar
breyta- Vefur HS Veitna Geymt 12 mars 2008 í Wayback Machine
- Vefur HS Orku Geymt 11 janúar 2015 í Wayback Machine