Hellar í Landsveit
Hellar í Landsveit er bær í Rangárvallasýslu, vestan undir Skarðsfjalli, og dregur hann nafn sitt af manngerðum hellum sem þar eru. Hellar eru gömul bújörð og á þá er minnst í máldögum frá 14. öld. Þar er nú sauðfjárbúskapur.
Hellarnir eru þrír talsins, höggnir í sandstein eða móhellu, og er sá stærsti þeirra, Hellnahellir, lengsti manngerði hellir á Íslandi, um 50 metrar á lengd. Fremri hluti hans kallast Heyhellir og var lengi notaður sem hlaða. Í Hellnahelli hafa á síðari árum verið haldnar ýmsar samkomur, söngskemmtanir og fleira og árið 2000 söng biskup Íslands messu þar.
Hinir hellarnir kallast Lambahellir og Hesthellir og eru þeir tengdir saman með göngum. Menjar um fleiri hella má sjá á Hellum en þeir hafa fallið saman. Hellarnir hafa verið notaðir sem geymslur, fjárhús og fleira. Einhverjir þeirra hafa verið mannabústaðir og margar kenningar eru á lofti um íbúana og aldur hellanna sjálfra. Kenningar hafa komið fram um að sumir hellanna kunni að vera eldri en landnám og hafa hýst Papa. Hvað sem því líður hljóta þeir að vera að minnsta kosti jafngamlir bæjarnafninu, en elstu ritaðar heimildur um nafnið eru frá áriðnu 1332. Hellarnir eru friðlýstir.
Til er þjóðsaga sem segir frá kálfi sem hvarf eitt sinn í Hellnahelli og manni sem fór að leita hans. Hann gekk lengi í myrkrinu í hellinum, þangað til hann heyrði árnið yfir höfði sér, varð hræddur og sneri við. Þegar hann komst loks aftur upp úr hellinum var hann með gullsand í skónum. Skömmu síðar heyrðist baul undir hjónarúminu á Stóra-Núpii í Gnúpverjahreppi og þegar að var gáð var þar kominn kálfurinn heill á húfi, en hann hafði týnt halanum einhvers staðar á leiðinni.