Helgi Þorgils Friðjónsson

Helgi Þorgils Friðjónsson (fæddur 7. mars 1953 í Búðardal) er íslenskur myndlistarmaður. Hann ólst upp í Búðardal til fimmtán ára aldurs en fluttist þá til Reykjavíkur. Helgi stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1971-1976. Að því loknu fór hann til Haag og var í námi í De Vrije akademíunni og árið eftir í Jan van Eyck akademíunni í Maastricht í Hollandi. Námi sínu þar lauk hann árið 1979 og kom heim í kjölfarið.

Helgi segir í bókinni Helgi Þorgils Friðjónsson, Sjónþing 13. október 1996, að hann hafi komið inn í Myndlista- og handíðaskólann sem hálfgerður sveitamaður. Hann þakkar kennurum sínum fyrir að taka sér vel en hann var í deild sem þá var kölluð Frjáls myndlistardeild. Þarna nefnir hann reyndar líka að seinna þegar hann var farinn að mála hafi kennarar sínir „snúið upp á sig gagnvart verkum sínum” (Hannes Sigurðsson, 1996).

Málarinn Helgi

breyta

Helgi hafði unnið mikið með teikningar, grafík og texta. Þegar hann byrjar fyrst að vinna með málverkið á skólaárunum í Hollandi og þá hlítir hann öllum þeim reglum sem unnið var með á þeim tíma. Það þótti honum of flókið og vildi einfalda hlutina. Þá fer hann í að „yfirfæra skissuna á striga þ.e. að koma hugsuninni beint í málverkið” (Hannes Sigurðsson, 1996). Helgi segist vinna myndir sínar hrátt og að þær byggist á einhvers konar konsepti/hugmynd sem tengi hann við samnefndan áratug.

Helgi tekur þátt í upphafi þeirrar stefnu sem kölluð hefur verið nýja málverkið og kom fram um 1980.

Helgi sýndi fyrst olíumálverk í Gallerí Sugurgötu 7 1980 og næst á sýningu í Norrænahúsinu 1981. Hann tók einnig þátt í stórum samsýningum eins og „Nýja málverkið” Nýlistasafninu og Gullströndin andar sem var haldin í JL-húsinu árið 1983. Tvær síðast nefndu sýningarnar vöktu mikla athylgi og umtal og hristu hressilega upp í myndlistarheiminum í landinu. Það var strax augljóst þarna að Helgi myndi skapa sér sérstöðu innan þess sem kallað er nýja málverkið. Á sýningu á Kjarvalsstöðum árið 1987 má segja að Helgi hafi fyrst fengið viðukenningu á verkum sínum.

Helgi var farinn að mála fígúrurnar, sem hafa síðan einkennt málverk hans, í kringum 1987 og voru málverkin á Kjarvalssýningunni í þeim dúr. Í myndunum má finna svo til öll helstu táknin sem hafa verið einkennandi í verkum Helga s.s. landslag, kentárar og englar. Helgi segir sjálfur að hann noti táknmál með „frekar léttum og óábyrgum hætti”. Hann segist vera að „stefna saman sögunni; mannkynssögunni og listasögunni”. Helgi notar mikið tilvitnanir í ævintýri og þjóðsögur með súrrealískum undirtóni en verkin verða þó aldrei í raun súrrealísk. Gunnar B. Kvaran segir í bók um Helga sem Listasafn Reykjavíkur gaf út árið 1989 að hugmyndin og myndefnið hafi ávallt gegnt jafn stóru hlutverki og hin formræna útfærsla í vekum hans.

Helgi segist sjálfur vera að vinna með einsemd mannsins í verkum sínum. Þetta má m.a. sjá í því að fólkið/fígúrurnar myndunum snertast svo til aldrei, augu þess mætast ekki og það virðist varla vita hvert af öðru. Þetta ítrekar hann líka með því að mála konur jafnt sem karla nakta en án þess að höfða til kynhvatarinnar. Einsemdin alger.

Samband manns og náttúru er stór þáttur í list Helga og landslagið sem slíkt fastur punktur í verkum hans. Hann hefur dvalið úti á landi og finnst mikið til náttúrunnar koma almennt.

Helgi talaði um það á sjónþinginu í Gerðubergi í október 1996 að hann hafi átt frekar erfitt með að mála landslag fyrst þegar hann var að byrja að mála. Síðar meir hafi hann náð betra sambandi við það. Hann segir að oftast sé landslagið skáldskapur einn en í hveri mynd sé svona eitt og eitt sem hann tengi veruleikanum eins og t.d. stakur foss, fjall o.s.frv.

Myndmálið í myndum Helga hefur tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina – tákngervingin, formið og litræn framsetning.

Gallerý gangurinn – the corridor

breyta

Helgi opnaði lítið sýningarými sem hann kallar „Gallerí gang” árið 1980 og hefur „Gangurinn“ verið starfandi síðan. Á heimasíðu Helga – http://www.helgi-fridjonsson.com/ Geymt 9 mars 2009 í Wayback Machine - segir að megin markmiðið með rekstrinum sé að kynna myndlistarmenn og aðra fyrir nýjum erlendum listamönnum. Fjölmargir erlendir myndlistarmenn hafa sýnt hjá Helga og á síðunni segir að margir hverjir hafi komið aftur til Íslands ýmist til þess að sýna eða sem almennir ferðamenn. Með því að fá listamennina aftur til landsins finnst Helga að hann hafi náð markmiðum sínum með rekstri „Gangsins”.

Heimildir

breyta
  • Gunnar B. Kvaran. (1989). Helgi Þorgils Friðjónsson. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur, Kjarvalsstaðir.
  • Ólafur Kvaran. (1999). Helgi Þorgils Friðjónsson. Reykjavík: Listasafn Íslands.
  • Ólafur Kvaran – fyrirlestur á http://www.ugla.hi.is í nóvember 2008.
  • Hannes Sigurðsson, Ólafur Gíslason, Þorri Hringsson. (1996). Helgi Þorgils Friðjónsson - Sjónþing VI. Reykjavík: Menningarmiðstöðin Gerðuberg.
  • Helgi Þorgils Friðjónsson. (2007). The corridor. Sótt 17. nóvemer 2008 af http://www.helgi-fridjonsson.com/ Geymt 9 mars 2009 í Wayback Machine