Hassanal Bolkiah

Soldán Brúnei

Hassanal Bolkiah (f. 15. júlí 1946) er 29. og núverandi soldáninn af Brúnei. Hann er jafnframt fyrsti og núverandi forsætisráðherra landsins. Hassanal er elsti sonur soldánsins Ómars Alí Saifuddien 3. og drottningar hans, Pengiran Anak Damit. Hann tók við soldánstitli yfir Brúnei eftir að faðir hans sagði af sér þann 5. október árið 1967. Hassanal var þá nýlega útskrifaður úr konunglega herskólanum í Sandhurst í Englandi.[1] Hann hefur ríkt lengst allra núlifandi erfðaeinvalda.[2]

Skjaldarmerki Bolkiah-ætt Soldán Brúnei
Bolkiah-ætt
Hassanal Bolkiah
Hassanal Bolkiah
Ríkisár 5. október 1967
SkírnarnafnHaji Hassanal Bolkiah Mu'izzaddin Waddaulah
Fæddur15. júlí 1946 (1946-07-15) (78 ára)
 Istana Darussalam, Bandar Seri Begawan, Brúnei
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Ómar Alí Saifuddien 3.
Móðir Pengiran Anak Damit
DrottningRaja Isteri Pengiran Anak Hajah Saleha (g. 1965)
Hajah Mariam (g. 1982–2003)
Azrinaz Mazhar (g. 2005–2010)
Börn12

Hassanal hefur í marga áratugi verið talinn einn auðugasti maður heims og hefur þá gjarnan verið metinn sá allra auðugasti. Auðævi sín á hann að þakka gjöfulum olíulindum í Brúnei sem hann getur ráðstafað að vild í krafti valda sinna sem óskoraður einvaldur landsins.[1] Hassanal býr í höll sem er talin sú stærsta í heimi. Í henni eru 1.788 herbergi, 257 salerni, 44 stigar og 18 lyftur. Alls er soldánshöllin um 750.000 fermetrar á stærð. Hann hefur einnig fjárfest í fjölda erlendra lúxushótela og á m.a. Dorchester-hótelið í London.[3]

Faðir Hassanals, fyrrverandi soldáninn Saifuddien, naut enn mikilla valda í stjórn Brúnei þar til hann lést árið 1986.[1] Á þeim tíma hafði Hassanal orð á sér fyrir að vera glaumgosi og fyrir að hafa meiri áhuga á bílum og lúxuslífi en á stjórnmálum. Þegar Hassanal var 19 ára kvæntist Hassanal frænku sinni, prinsessunni Salehu en árið 1982 tók hann sér aðra eiginkonu til viðbótar, flugfreyju að nafni Mariam Bell. Faðir soldánsins samþykkti aldrei ráðahaginn og málið spillti verulega sambandi þeirra.

Auk þess að ráða yfir ríkisstjórn landsins er soldáninn jafnframt trúarleiðtogi Brúneimanna. Á fyrstu áratugum sínum í soldánsembætti aðhylltist hann tiltölulega mildar trúarreglur og bókstafstúlkanir á íslamstrú hlutu ekki mikinn hljómgrunn. Hassanal fór hins vegar að gæla við hugmyndina um að innleiða sjaríalög í landinu á tíunda áratugnum. Árið 2019 lét soldáninn setja ströng sjaríalög í Brúnei sem kveða meðal annars á um að samkynhneigðir karlmenn og konur sem gerast uppvísar um framhjáhald skuli grýtt til dauða.[4] Löggjöfin hefur vakið hörð viðbrögð erlendis og hvatningar um að sniðganga hótel í eigu Brúnei.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 „Auðugastur í heimi“. Alþýðublaðið. 30. nóvember 1988. Sótt 6. apríl 2019.
  2. „World's second-longest reigning monarch, Sultan Hassanal Bolkiah, marks golden jubilee in style“ (enska). Times Now. 5. október 2017. Sótt 6. apríl 2019.
  3. Guðmundur Halldórsson (25. júní 1989). „Ríkasti maður í heimi“. Morgunblaðið. Sótt 6. apríl 2019.
  4. Ævar Örn Jósepsson (3. apríl 2019). „Sjaríalögum framfylgt frá og með deginum í dag“. RÚV. Sótt 6. apríl 2019.
  5. Birta Björnsdóttir (1. apríl 2019). „Soldáninn sem Clooney vill láta sniðganga“. RÚV. Sótt 6. apríl 2019.


Fyrirrennari:
Ómar Alí Saifuddien 3.
Soldán Brúnei
(5. október 1967 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti