Hýperbórea

Hýperbórea (forngríska: Ὑπερβόρε(ι)οι) var í grískri goðafræði land „handan norðanvindsins“ þar sem risar bjuggu. Nafnið er dregið af Boreasi, guði norðanvindsins, sem Grikkir töldu að byggi í Þrakíu. Hýperbórea hefur því verið handan Þrakíu.

Kort Gerardus Mercator sem sýnir stórt meginland umhverfis Norðurpólinn.

Samkvæmt goðsögninni var Hýperbórea land þar sem sólin skein allan sólarhringinn, sem ýmsir hafa túlkað sem vísun í Norðurslóðir og miðnætursólina þar. Hýperbórea gæti allt eins verið staðleysa. Grískir höfundar á borð við Heródótos, Hómer og Sófókles, staðsettu Hýperbóreu ýmist í Asíu eða Evrópu, til dæmis í Kasakstan, Dakíu, löndum Kelta eða enn norðar. Kort sem byggjast á lýsingum Strabóns sýna Hýperbóreu sem skaga eða eyju norðan við Frakkland. Hekataios frá Abderu varð fyrstur til að tengja Hýperbóreu við Bretlandseyjar á 4. öld f.Kr.

Hýperbórea og Túle koma fyrir í verkum klassískra höfunda sem útópísk „ókunn lönd“ þar sem fólk nýtur langlífis og lifir í fullkominni sælu.