Gullfoss (skip, 1915)
Gullfoss var fyrsta skip Eimskipafélags Íslands og kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur 16. apríl 1915. Var þá almennur frídagur í bænum og mikið fagnað.
Þetta fyrsta vélknúna millilandaskip Íslendinga var smíðað í Kaupmannahöfn og var ganghraði þess 11 sjómílur á klukkustund. Í því var rými fyrir 74 farþega og sigldi skipið með fólk og varning, ýmist milli Íslands og Bandaríkjanna og Íslands og Evrópu, auk þess að stunda strandsiglingar hér. Skipið kom hlaðið af vörum frá útlöndum en fyrsta sigling þess með farm eftir að heim kom var farin til Hafnarfjarðar 19. apríl og var þá öllum boðið að fara með ókeypis sem vildu. 400-500 manns notfærðu sér það boð.
Gullfoss varð innlyksa í Danmörku við hernámið 1940 og var undir yfirráðum Þjóðverja til stríðsloka. Þá fannst skipið illa farið í Kiel og var selt til Færeyja þar sem það nefndist Tjaldur.[1] Gullfoss var rifinn 1953 í Hamborg í Þýskalandi.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Skrautbúið skip fyrir landi.“ Vísir, 29. apríl 1950.