Guðmundur G. Bárðarson
Guðmundur G. Bárðarson (3. janúar 1880 – 13. mars 1933) var íslenskur náttúrufræðingur, sem fæddist á Borg í Skötufirði en lést í Reykjavík, fimmtíu og þriggja ára að aldri. Foreldrar hans voru Guðmundur Bárðarson bóndi á Borg og Guðbjörg Sigurðardóttir. Hann ólst upp með föður sínum á Kollafjarðarnesi í Strandasýslu. Guðmundur var að mestu sjálfmenntaður í fræðum sínum. Hann nam við Menntaskólann í Reykjavík 1897 – 1901 en varð þá að hætta námi vegna heilsubrests. Hann giftist Helgu Finnsdóttur frá Kjörseyri 1906 og stóð þar fyrir búi í nokkur ár. Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla 1909-1910 en vanheilsa hamlaði á ný lengra námi. Eftir heimkomuna stundaði hann náttúrurannsóknir, einkum jarðfræði, af kappi samhliða búskapnum á Kjörseyri. Árið 1921 fluttist hann til Akureyrar og gerðist kennari í náttúrufræði við gagnfræðaskólann þar en árið 1926 var hann ráðinn til kennslu í náttúrufræði við Menntaskólann í Reykjavík. Þar starfaði hann samhliða jarðfræðirannsóknum sínum til æviloka. Hann athugaði skeldýrafánu Íslands, bæði þau dýr sem lifa við strendur landsins í dag en einnig fornskeljar og steingervinga í jarðlögum. Hann rannsakaði nákuðungslögin við Húnaflóa og Tjörneslögin. Eitt þekktasta ritverk Guðmundar er Ágrip af jarðfræði sem var kennd um áratugaskeið í öllum menntaskólum landsins. Einnig skrifaði hann fjölmargar greinar í blöð og tímarit. Hann stofnaði ásamt Árna Friðrikssyni tímaritið Náttúrufræðinginn, sem enn kemur út. Hann var einn af stofnendum Vísindafélags Íslendinga og mikill frumkvöðull í fuglamerkingum.[1]
Tengill
breytaHeimild
breyta- ↑ Steindór Steindórsson 1981. Íslenskir Náttúrufræðingar 1600-1900. Bókaútgága Menningarsjóðs, Reykjavík