Greenock Morton F.C.

Greenock Morton Football Club er knattspyrnufélag frá samnefndum bæ í vestanverðu Skotlandi. Félagið var stofnað árið 1874 og var gekk undir nafninu Morton Football Club til ársins 1994 þegar heiti þess var breytt í núverandi mynd. Félagið hefur einu sinni orðið skoskur bikarmeistari og margoft leikið í efstu deild, síðast árið 1988.

Morton F.C. var eitt fjölmargra knattspyrnufélaga sem stofnuð voru í Skotlandi á áttunda áratug nítjándu aldar. Uppruni nafnsins Morton er óljós en vísaði líklega í húsaþyrpinguna Morton Terrace þar sem margir stofnfélaganna bjuggu. Þegar 2. deild skosku knattspyrnunnar var stofnsett árið 1893 var Morton meðal stofnfélaganna. Liðið komst svo í fyrsta sinn upp í efstu deild árið 1900 og endaði í fjórða sæti á fyrsta ári sínu þar.

Stærsta stundin í sögu Morton var árið 1922 þegar liðið sigraði Rangers í úrslitaleik bikarkeppninnar á Hampden Park að viðstöddum 70 þúsund áhorfendum. Sömu lið mættust aftur í úrslitum bikarkeppninnar veturinn 1947-48. Þau skildu fyrst jöfn, 1:1 og þurfti því að grípa til annars leiks. Þar reyndust andstæðingarnir frá Glasgow sterkari og unnu 1:0 eftir framlengingu. Leikmenn Morton voru afar ósáttir með sigurmarkið þar sem markvörður þeirra var sagður hafa blindast vegna leifturljóss frá ljósmyndara.

Enn og aftur var Rangers mótherjinn í þriðja úrslitaleik Morton, það var í deildarbikarnum árið 1963. Lauk leiknum með 5:0 sigri Rangers að viðstöddum 106 þúsund áhorfendum. Vorið 1967 tryggði Morton sér í fyrsta og eina sinn þátttökurétt í Evrópukeppni. Það var í Borgakeppni Evrópu. Liðið dróst í fyrstu umferð á móti Chelsea og féll þegar úr keppni.

Á sjöunda áratugnum ruddi Morton brautina fyrir innreið norrænna knattspyrnumanna í skosku deildina. Erik Sørensen, markvörður danska landsliðsins reið á vaðið árið 1963. Á næstu árum átti Morton eftir að fá til liðs við sig nokkra danska leikmenn og fylgdu önnur lið í kjölfarið, en atvinnumennska hafði um þær mundir ekki verið tekin upp á Norðurlöndunum.

Morton hafði löngum flakkað milli efstu og næstefstu deildar í Skotlandi og státar af því meti að hafa tíu sinnum unnið sig upp í efstu deild og tíu sinnum fallið niður aftur. Síðast gerðist það árið 1988 en upp frá því hefur félagið átt erfitt með að keppa við stærri og ríkari félög og fjárhagsvandræði sett svip sinn á reksturinn.

Íslendingar hjá Morton

breyta

Knattspyrnumaðurinn Guðgeir Leifsson gekk til liðs við Morton frá Fram árið 1974 og lék fjóra leiki með liðinu. Á sama tíma lék KR-ingurinn Atli Þór Héðinsson tvo leiki fyrir Morton.

Snemma á ferli sínum, haustið 1972, var Ásgeir Sigurvinsson við æfingar hjá Rangers þegar fulltrúar Morton buðu honum atvinnumannssamning. Hann hafnaði boðinu þrátt fyrir mikinn þrýsting Skotanna.

Titlar

breyta
  • Skoski bikarinn (1): 1921-22
  • Úrvalsdeild, besti árangur: annað sæti 1916-17
  • Skoski deildarbikarinn besti árangur: úrslitaleikur 1963-64