Grænmetisverzlun ríkisins
Grænmetisverzlun ríkisins var íslensk ríkisstofnun með einkaleyfi á heildsölu og innflutningi grænmetis. Hún tók til starfa 1. maí 1936. Grænmetisverzlunin var fyrst og fremst heildsala en gert var ráð fyrir því að hún gæti selt beint til neytenda á einum stað í Reykjavík. Verslunin reisti Grænmetisskálann á horni Sölvhólsgötu og Ingólfsstrætis árið 1937 og gerði þar ráð fyrir bæði sérhönnuðum kartöflugeymslum í kjallara og grænmetismarkaði.
Einkaleyfið náði bæði til innflutts og innlends grænmetis og fljótlega urðu íslenskir grænmetisframleiðendur óánægðir með verðið sem stofnunin greiddi fyrir framleiðslu þeirra. Þann 13. janúar 1940 komu garðyrkjubændur því saman á fundi á Hótel Borg og stofnuðu nokkrir þeirra Sölufélag garðyrkjumanna sem fékk leyfi til sölu og dreifingar á ylræktuðu grænmeti. Grænmetisverzlunin hafði eftir sem áður einkaleyfi á útiræktuðu grænmeti.
Árið 1956 var stofnunin lögð niður og verkefni hennar flutt til Grænmetisverzlunar landbúnaðarins („Gullaugans“) og Framleiðsluráðs landbúnaðarins sem áfram héldu einkasöluleyfi (en voru í raun sjálfseignarstofnanir) og störfuðu áfram við Sölvhólsgötu. Grænmetisverslun landbúnaðarins var seld 1985 og tók þá Landssamband kartöflubænda við verkefnum hennar í gegnum Sölufélag garðyrkjumanna.