Gjóskulagafræði

(Endurbeint frá Gjóskutímatal)

Gjóskulagafræði, eða gjóskutímatal, er aðferð sem notar gjóskulag úr ákveðnu eldgosi, sem tímaviðmiðun í jarðfræði, fornleifafræði eða loftslagsfræði. Sérhvert eldgos hefur ákveðin efnafræðileg séreinkenni, sem greina má í gjóskunni, og er því með efnagreiningu hægt að sjá úr hvaða eldstöð og jafnvel úr hvaða eldgosi gjóskan er komin. Hins vegar verður að tímasetja gjóskulögin með öðrum aðferðum.

Gjóskulagasnið á Suðurlandi. Þykka ljósa gjóskulagið er úr Heklu.

Helstu kostir þessarar aðferðar eru að tiltölulega auðvelt er að greina gjóskulögin í setlögum, og að þau hafa fallið á sama tíma á mjög stóru svæði. Þetta þýðir að öskulögin geta verið nákvæmur tímamælir sem má nota til að staðfesta eða styðja aðrar aðferðir við tímasetningu, og tengja saman í samræmt tímatal setlagasnið af stóru svæði og við mismunandi aðstæður.

Helstu ókostir gjóskutímatals eru að það er takmarkað við svæði þar sem er umtalsverð eldvirkni. Einnig getur efnasamsetning gjóskunnar breyst með tímanum, og er þá erfiðara að staðfesta upprunann. Loks þarf nákvæma efnagreiningu á gjóskunni, til þess að greina úr hvaða eldgosi hún er.

Helstu eldfjöll, sem hafa verið miðpunktur gjóskulagarannsókna, eru Hekla, Vesúvíus og Santorini. Minni eldgos geta einnig skilið eftir sig öskulög í jarðlögum, t.d. Hayes-eldfjallið sem hefur skilið eftir sig sex áberandi gjóskulög í grennd við Anchorage í Alaska. Sum öskulög ná yfir gríðarstórt svæði, t.d. öskulag sem greinst hefur í botnseti Saksunarvatns í Færeyjum, og víðar í Norður-Evrópu.

Upphafsmaður gjóskulagarannsókna var Sigurður Þórarinsson, sem í doktorsritgerð sinni 1944, rannsakaði gjóskulög úr Heklu, einkum í Þjórsárdal og nágrenni. Sigurður gerði gjóskulagafræði að alþjóðlegri fræðigrein og tók upp nafnið „tefra“ um loftborin föst gosefni, en orðið fann hann í fornu latnesku riti eftir Plinius yngra.

Í seinni tíð hefur Guðrún Larsen, jarðfræðingur við jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, fengist mikið við gjóskulagarannsóknir, sem hafa m.a. varpað ljósi á gossögu Veiðivatna og Kötlu. Ný tækni við efnagreiningu örsmárra öskusýna hefur á síðari árum opnað nýjar víddir í þessum rannsóknum. Einnig hafa kjarnaboranir í gegnum Grænlandsjökul gert mönnum kleift að tímasetja af nokkurri nákvæmni söguleg og forsöguleg stórgos á Íslandi.

Eftir 1995, þróaði C. S. M. Turney og aðrir tækni til að greina gjóskulög sem eru ekki sýnileg berum augum, og hefur hún aukið mjög notagildi gjóskulagarannsókna. Þessi tækni byggist á mismunandi eðlismassa smásærra gjóskukorna og setsins sem þau leynast í. Þannig hefur t.d. tekist að rekja öskulag (Vedde-öskulagið), sem fundist hefur á Bretlandi, í Svíþjóð, Hollandi, Soppensee í Sviss og á tveimur stöðum við Kirjálaeiði hjá Sankti Pétursborg, það er úr Kötlu og er um 12.100 ára gamalt.

Heimildir

breyta
  • Enska Wikipedian, 24. febrúar 2008.
  • Sigurður Þórarinsson: Tefrokronologiska studier på Island : Þjórsárdalur och dess förödelse. København 1944. Doktorsritgerð við Háskólann í Stokkhólmi.
  • Sigurður Þórarinsson: Heklueldar. Sögufélag, Reykjavík 1968.
  • Sigurður Þórarinsson: Tephrochronology in medieval Iceland. Scientific Methods in Medieval Archaeology (ritstj. R. Berger). Berkeley 1970, bls. 295-328.
  • Guðrún Larsen: Gjóskutímatal og gjóskulög frá tíma norræns landnáms á Íslandi. Um landnám á Íslandi. Vísindafélag Íslendinga, Reykjavík 1996. bls. 81-106.

Tenglar

breyta