Gerður Kristný Guðjónsdóttir (fædd í Reykjavík 10. júní 1970) er íslenskur rithöfundur og ljóðskáld.

Gerður Kristný.

Gerður lauk B.A.-prófi í frönsku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 1992 og stundaði einnig nám í hagnýtri fjölmiðlun 1992-1993. Hún var ritstjóri Mannlífs á árunum 1998 til 2004 en hefur síðan haft ritstörf að aðalatvinnu.

Gerður Kristný hefur sent frá sér ljóðabækur, skáldsögur, smásögur, barnabækur, viðtalsbók og ferðasögu og hafa bækur hennar hlotið ýmsar viðurkenningar, þar á meðal Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt, Bókaverðlaun barnanna 2003 fyrir söguna Marta smarta, Blaðamannaverðlaun Íslands 2005 fyrir bókina Myndin af pabba - Saga Thelmu, Vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunin fyrir Garðinn og Íslensku bókmenntaverðlaunin 2010 fyrir ljóðabókina Blóðhófnir. Sú síðastnefnda var einnig tilnefnd af Íslands hálfu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2011 og hefur verið gefin út í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Englandi og Spáni. Árið 2010 fékk Gerður Kristný Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar sem og Ljóðstaf Jóns úr Vör. Bók Gerðar, Drápa (2014), kom út í Englandi, Noregi, Finnlandi og Danmörku og Sálumessa (2018) sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, kom út í Danmörku og Noregi og Englandi. Árið 2020 fékk Gerður Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Gerður fékk Fjöruverðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta árið 2021 fyrir bókina Iðunn og afi pönk og í flokki fagurbókmennta árið 2022 fyrir Urtu. Gerður var sæmd hinni íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta árið 2021. Árið 2024 hlaut Gerður viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins.

Í febrúar 2011 var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu barnaleikritið Ballið á Bessastöðum, sem byggt er á bókum Gerðar Kristnýjar, Ballinu á Bessastöðum (2007) og Prinsessunni á Bessastöðum (2009).

Gerður Kristný er höfundur handrits Skólaþings sem Alþingi Íslendinga hleypti af stokkunum árið 2007. Á Skólaþingi gefst nemendum í grunn- og framhaldsskólum tækifæri til að setja sig í spor þingmanna og fylgja reglum um starfshætti Alþingis.

Gerði Kristnýju var boðið fyrir Íslands hönd á rithöfundaþingið í Iowa City haustið 2014 og dvaldi hún þar við ritstörf í 10 vikur. Einnig hefur hún sinnt störfum sínum í Bergmangårdarna á Fårö, Baltic Centre for Writers and Translators í Visby á Gotlandi og í Hawthornden-kastala á Skotlandi. Hún hefur sótt ljóða- og bókmenntahátíðir víða um heim, m.a. á Indlandi, Finnlandi, Bretlandi, í Nikaragva, Kólumbíu, Kína, Indónesíu og Bangladess.Helstu verk

breyta
 • Ísfrétt, 1994.
 • Regnbogi í póstinum, 1996.
 • Eitruð epli, 1998.
 • Launkofi, 2000.
 • Ég veit þú kemur: Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 2002, 2002.
 • Marta smarta, 2002.
 • Bátur með segli og allt, 2004.
 • Jóladýrin, 2004.
 • Myndin af pabba - Saga Thelmu, 2005.
 • Land hinna týndu sokka, 2006.
 • Ballið á Bessastöðum, 2007.
 • Höggstaður, 2007.
 • Garðurinn, 2008.
 • Prinsessan á Bessastöðum, 2009.
 • Blóðhófnir, 2010.
 • Forsetinn, prinsessan og höllin sem svaf, 2011.
 • Strandir, 2012.
 • Ljóðasafn, 2014.
 • Drápa, 2014.
 • Dúkka, 2015.
 • Hestvík, 2016.
 • Smartís, 2017.
 • Sálumessa, 2018.
 • Heimskaut, 2019.
 • Iðunn og afi pönk, 2020.
 • Meira pönk, meiri hamingja, 2021.
 • Urta, 2022

Ytri tenglar

breyta

Heimildir

breyta
 • „Umfjöllun á Bókmenntavefnum. Skoðað 13. febrúar 2011“.
 • „Umfjöllun á vef Forlagsins. Skoðað 13. febrúar 2011“.
 • Maður verður að vera sæmilegur til samviskunnar, viðtal 20. október 2018
 • https://www.visir.is/g/2014704179971