Geirmundur heljarskinn Hjörsson

Geirmundur heljarskinn var íslenskur landnámsmaður sem nam land við innanverðan Breiðafjörð og bjó á Skarðsströnd en þótti landnám sitt þar of lítið svo að hann nam einnig land á Hornströndum og hafði þar fjögur bú.

Geirmundur er í Landnámabók sagður ættgöfgastur allra landnámsmanna, sonur Hjörs Hörðakonungs. Hjör hafði herjað á Bjarmaland og tekið að herfangi Ljúfvinu dóttur Bjarmakonungs. Á meðan konungur var í herför ól hún honum tvo syni sem fengu nöfnin Geirmundur og Hámundur. Þegar þeir fæddust voru þeir dökkir yfirlitum og húðin öll hrukkótt, og voru þeir því kallaðir heljarskinn.

Geirmundur átti ríki á Rogalandi en herjaði í vesturvíking. Þegar hann kom heim eftir langa fjarveru hafði Haraldur hárfagri unnið sigur á mótstöðumönnum sínum í Hafursfjarðarorrustu og lagt undir sig allt Rogaland. Sá þá Geirmundur, sem þá var orðinn roskinn, þann kost vænstan að fara á brott og leitaði til Íslands. Með honum fóru þeir Úlfur skjálgi Högnason frændi hans og Steinólfur lági Hrólfsson. Þeir voru hver á sínu skipi en höfðu samflot, sigldu inn á Breiðafjörð og lögðu skipum sínum við Elliðaey í Breiðafirði . Þar fréttu þeir að land væri numið fyrir sunnan fjörð en nóg land væri inni í firðinum og á norðurströndinni. Geirmundur hélt þá inn að Skarðsströnd og nam land þar, Steinólfur nam Saurbæ allan, en Úlfur Reykjanes.

Geirmundur var fyrsta veturinn í Búðardal og byggði svo bæ á Geirmundarstöðum undir Skarði, en hann eða afkomendur hans fluttu sig síðan að Skarði á Skarðsströnd, skammt frá Geirmundarstöðum. Hann rak stórbú og hafði að sögn Landnámu áttatíu frjálsborna menn með sér. Honum þótti þröngt um sig svo að hann fór vestur á Hornstrandir og nam þar land frá Rit að vestan til Horns og þaðan austur til Straumness. Þar átti hann fjögur bú. Eitt þeirra var í Barðsvík. Því stýrði Atli þræll hans og hafði undir sér fjórtán þræla. Vébjörn Végeirsson Sygnakappi braut skip sitt þar í grennd og björguðust skipbrotsmenn nauðulega. Atli tók við þeim til veturvistar og vildi enga greiðslu taka fyrir því Geirmund vantaði ekki mat. Þegar þeir Geirmundur hittust næst spurði Geirmundur Atla hvers vegna hann væri svo djarfur en Atli sagði að það yrði uppi meðan Ísland væri byggt hve mikils háttar sá maður væri þegar einn þræll þyrði að gera slíkt án hans leyfis. Geirmundi þótti mikið til um svarið og gaf Atla frelsi og einnig búið sem hann hafði varðveitt.

Geirmundur var kvæntur Herríði Gautsdóttur Gautrekssonar. Dóttir þeirra Ýr var gift Katli gufu Örlygssyni. Lítt deildi Geirmundur við aðra menn hérlanda. Eitt sinn deildi hann þó við Kjallak á Kjallaksstöðum um eignarhald á landi við Fábeinsá sem báðir vildu.

Heimildir

breyta
  • „Landnáma á snerpa.is“.