Gay Liberation Front

Gay Libertaion Front (GLF) var hreyfing sem barðist fyrir réttindum samkynhneigðra í Bandaríkjunum á sjöunda og áttunda áratugnum. Fyrstu GLF samtökin voru stofnuð í New York í júlí 1969 og á næstu árum voru GLF samtök stofnuð í öðrum borgum Bandaríkjanna, auk Bretlands og Kanada. Þau eru ein af mörgum róttækum baráttusamtökum samkynhneigðra sem spruttu upp úr Stonewall-uppþotunum árið 1969 og eru meðal róttækum fjöldahreyfinga sem komu fram á sjöunda áratugnum og kallaðar hafa verið Nýja vinstrihreyfingin. Ólíkt eldri hreyfingum (e. Homophile Movemet) voru þessar hreyfingar róttækari í baráttuaðferðum og kröfum.[1]

Hugmyndafræði breyta

Stefnuskrá Gay Liberation Front lagði áherslu á baráttu gegn kapítalisma, feðraveldi, hvítri kynþáttahyggju og heimsvaldastefnu og endurspeglaði greiningu hins nýja vinstris á bandarísku samfélagi eftirstríðsáranna. Barátta samkynheigðra væri hluti af baráttu gegn "kerfinu" og hliðstæð réttindabaráttu jaðarsetts fólks um allan heim. Gay Liberation Front gagnrýndi bæði eldri réttindabaráttusamtök homma og lesbía á borð við Mattachine Society og Daughters of Bilitis fyrir að horfa framhjá hlutverki feðraveldisins í kugun samkynhneigðra, og systurhreyfingar sínar innan hins Nýja vinstris fyrir hómófóbíu. Þó að sumir af fremstu hugsuðum hins Nýja vinstris hefðu verið samkynhneigðir, til að mynda Allen Ginsberg, James Baldwin og Paul Goodman, var hómófóbía útbreidd innan hreyfingarinnar og réttindabarátta samkynhneigðra jaðarsett.

Gay Liberation Front sagði heteronormatívu samfélagi eftirstríðsáranna og hefðbundnum fjölskyldugildum stríð á hendur og hafnaði því að samkynhneigt fólk ætti að aðlagast gildum ríkjandi samfélags, heldur ætti það að skapa nýtt samfélag. Samkynhneigt fólk ætti að vera stolt af kynhneigð sinni og játa hana opinberlega. Að "koma út úr skápnum" væri róttæk og byltingarkennd persónuleg athöfn sem hafnaði samfélagslegri kúgun. Hið persónulega væri í þessu sambandi pólítískt. [2]

Áhrif breyta

Samtökin voru virk á árunum 1969-71. Þau einkenndust af flötum strúktúr og grasrótarlýðræði. Innan GLF störfuðu ýmsar sellur eða hópar, þeirra á meðal The Flaming Faggots, Third World Gay Revolution, Street Transvestite Action Revolutionaries (STAR) og Radicalesbians, sem var hópur róttækra lesbía sem litu á lesbíanisma sem "femínisma í framkvæmd". Í maí 1970 stóðu félagar í hópnum fyrir gjörningi á kvenréttindaþingi í New York þar sem þær gagnrýndu ótta meginstraumsfemínista við "lavenderógnina" og fjandskap margra leiðtoga hreyfingarinnar, á borð við Betty Friedan, við réttindabaráttu samkynhneigðra kvenna. Gjörningur Radicalesbians er einn mikivægasti vendipunktur réttindabaráttu LGBTQ hreyfingarinnar.

Tveir af leiðtogum Street Transvestite Action Revolutionaries voru klæðskiptingarnir og dragdrottningarnar Marsha P. Johnson og Sylvia Rivera sem höfðu mikilvægt hlutverk í Stonewall-uppþotunum. STAR stofnaði athvörf fyrir LGBT ungmenni og fólk sem starfaði við vændi í New York. Þó Johnson og Rivera hafi skilgreint sig sem klæðskiptinga og dragdrottningar, frekar en transkonur, enda var það hugtak ekki í almennri notkun á þeim tíma, varð barátta þeirra innblástur og hornsteinn réttindabaráttu transkvenna og annars transfólks.[3][4]

Sellur The Gay Liberation Front gáfu út nokkur tímarit, þar á meðal Come Out! sem birti fjölda ritgerða sem áttu eftir að hafa mikil áhrif á réttindabaráttu samkynhneigðra. GLF lék mikilvægt hlutverk þróun samfélags og menningar samkynhneigðra með stofnun félagsmiðstöðva. Dansleikir GLF voru einnig mikilvægur hluti af menningu samkynhneigðra í New York á árunum 1969-1971. Lágur aðgangseyrir og ódýrar veitingar, ásamt háværri rokktónlist og andrúmslofti sem var í anda kynlífsbyltingar sjöunda áratugarins, og átti lítið skylt við stífa hommaklúbba New York, stuðluðu að vinsældum þeirra.[5]

Samtökin lognuðust út af á árunum 1971-72 meðal annars vegna innbyrðis deilna ólíkra milli hópa lesbía annars og róttækra femínista vegar og homma og transfólks hinsvegar. Þó samtökin hafi lognast út af 1971-2 höfðu þau varanleg áhrif á baráttuaðferðir, orðræðu og hugmyndafræði baráttuhreyfingar samkynhneigðra í Bandaríkjunum.[6]

Tilvísanir breyta

  1. Andrew Hartman (2019). A War for the Soul of America: A History of the Culture Wars. The University of Chicago Press. bls. 33.
  2. Andrew Hartman (2019). A War for the Soul of America: A History of the Culture Wars. The University of Chicago Press. bls. 32.
  3. Shepard, Benjamin (2013-01). „From Community Organization to Direct Services: The Street Trans Action Revolutionaries to Sylvia Rivera Law Project“. Journal of Social Service Research. 39 (1): 95–114. doi:10.1080/01488376.2012.727669. ISSN 0148-8376.
  4. Cohen, Stephan. The Gay Liberation Youth Movement in New York:'an army of lovers cannot fail'. Routledge, 2007. bls 89-94.
  5. Kissack, T. (1. apríl 1995). „Freaking Fag Revolutionaries: New York's Gay Liberation Front, 1969-1971“. Radical History Review. 1995 (62): 105–134. doi:10.1215/01636545-1995-62-105. ISSN 0163-6545.
  6. Cole (2017). „Gay Liberation Front and Radical Drag, London 1970s“. QED: A Journal in GLBTQ Worldmaking. 4 (3): 165. doi:10.14321/qed.4.3.0165. ISSN 2327-1574.