Gísli Hjálmarsson

Gísli Hjálmarsson (d. 25. maí 1915), betur þekktur sem þingmaður Bolvíkinga, var áberandi persóna í bæjarlífi Reykjavíkur á fyrstu árum tuttugustu aldar.

Í andlátsfregn í Morgunblaðinu var Gísli sagður fyrrverandi kaupmaður og honum lýst á þennan hátt: …hniginn á efri ár og heilsa líkama og sálar hafði lengi verið slæm. – Gísli var einn af auðnuleysingjum þessa lands. [1]

Gísli var óreglumaður og átti við andlega vanheilsu að stríða. Fjótlega upp úr aldamótum beit hann í sig að hann væri réttkjörinn Alþingismaður fyrir Bolungarvík, sem þó var ekki sérstakt kjördæmi. Allt til dauðadags kallaði hann sig þingmann og skemmtu ýmsir bæjarbúar sér við að ala á þeim ranghugmyndum, þannig birtu dagblöðin öðru hvoru fréttir af ferðum þingmannsins með strandferðaskipunum.[2]

Gísli reyndi ítrekað að komast inn í þinghúsið til að sinna ímynduðum embættisskyldum sínum, en var yfirleitt vísað brott af þingvörðum. Þá gekk hann a.m.k. einu sinni í hópi þingmanna frá Dómkirkjunni til Alþingshússins við þingsetningu.

Árið 1912 var hálfgerð stjórnarkreppa á Íslandi, þegar þingmönnum gekk illa að koma sér saman um eftirmann Björns Jónssonar á ráðherrastóli. Varð þá til visa, sem fljótt varð landsfræg:

Fyrst nú alt er farið í tvent
og flokkar um völdin þinga,
því er kóngi þá ei bent
á þingmann Bolvíkinga?

Tilvísanir breyta

  1. „Morgunblaðið 26. maí 1915“.
  2. „Vísir 26. mars 1912“.

Tenglar breyta