Fumio Kishida
Fumio Kishida (f. 29. júlí 1957) er japanskur stjórnmálamaður, fyrrverandi forsætisráðherra Japans og fyrrverandi forseti Frjálslynda lýðræðisflokksins. Hann tók við embætti þann 4. október 2021 eftir afsögn Yoshihide Suga.[1]
Fumio Kishida | |
---|---|
岸田 文雄 | |
Forsætisráðherra Japans | |
Í embætti 4. október 2021 – 1. október 2024 | |
Þjóðhöfðingi | Naruhito |
Forveri | Yoshihide Suga |
Eftirmaður | Shigeru Ishiba |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 29. júlí 1957 Shibuya, Tókýó, Japan |
Stjórnmálaflokkur | Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn |
Maki | Yuko Kishida (g. 1988) |
Börn | 3 |
Háskóli | Waseda-háskóli |
Undirskrift |
Kishida hefur setið á japanska þinginu frá árinu 1993 fyrir Hírosíma og gegndi embætti utanríkisráðherra frá 2012 til 2017 í ríkisstjórn Shinzō Abe.[2]
Kishida gaf kost á sér í forsetakjöri Frjálslynda lýðræðisflokksins í september 2021 eftir að flokksleiðtoginn og forsætisráðherrann Yoshihide Suga lýsti yfir að hann hygðist ekki sitja lengur. Hann vann sigur þann 29. september eftir kosningabaráttu á móti Taro Kono, sem stýrði aðgerðum stjórnvalda gegn COVID-19-faraldrinum, Seiko Noda, fyrrverandi jafnréttisráðherra, og þingkonunni Sanae Takaichi. Eftir kjör sitt á forsetastól hvatti Kishida flokksfélaga sína til að sýna Japönum að Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn væri endurborinn og væri þess verður að fara áfram með stjórn landsmála.[3]
Japanska þingið staðfesti Kishida sem nýjan forsætisráðherra Japans þann 4. október 2021. Kishida hefur talað fyrir breytingum á efnahagsstefnunni sem Japan hefur fylgt frá því á stjórnartíð Shinzō Abe, sem Kishida vill meina að þjóni fyrst og fremst hagsmunum stórfyrirtækja.[4]
Kishida leiddi Frjálslynda lýðræðisflokkinn í kosningum þann 31. október 2021. Flokkurinn viðhélt hreinum meirihluta á japanska þinginu.[5]
Óvinsældir Kishida jukust jafnt og þétt á kjörtímabilinu í takt við versnandi efnahagsástand og ásakanir um spillingu innan Frjálslynda lýðræðisflokksins. Kishida tilkynnti þann 14. ágúst 2024 að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs sem forseti flokksins í september og myndi láta af embætti forsætisráðherra þegar nýr flokksleiðtogi hefði verið kjörinn.[6] Shigeru Ishiba var kjörinn nýr leiðtogi flokksins þann 27. september 2024.[7]
Tilvísanir
breyta- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (4. október 2021). „Japansþing kaus Kishida sem forsætisráðherra“. RÚV. Sótt 4. október 2020.
- ↑ Atli Ísleifsson (29. september 2021). „Allar líkur á að Kishida taki við embætti forsætisráðherra af Suga“. Vísir. Sótt 4. október 2020.
- ↑ Ásgeir Tómasson (29. september 2021). „Nýr leiðtogi Japans kjörinn“. RÚV. Sótt 4. október 2020.
- ↑ Atli Ísleifsson (4. október 2021). „Kishida staðfestur í embætti forsætisráðherra“. Vísir. Sótt 4. október 2021.
- ↑ Atli Ísleifsson (1. nóvember 2021). „Flokkur Kishida náði hreinum meirihluta“. Vísir. Sótt 27. nóvember 2021.
- ↑ „Óvinsæll forsætisráðherra stígur til hliðar“. mbl.is. 14. ágúst 2024. Sótt 14. ágúst 2024.
- ↑ Hugrún Hannesdóttir Diego (27. september 2024). „Shigeru Ishiba verður næsti forsætisráðherra Japan“. RÚV. Sótt 1. október 2024.
Fyrirrennari: Yoshihide Suga |
|
Eftirmaður: Shigeru Ishiba |