Francesco Petrarca
ítalskur rithöfundur, skáld og fræðimaður (1304-1374)
Francesco Petrarca (1304 – 19. júlí 1374) var ítalskur rithöfundur, skáld og fræðimaður. Hann er, ásamt Dante Alighieri, álitinn upphafsmaður endurreisnarinnar. Hann fæddist í Arezzo í Toskana og fluttist ungur til Flórens. Faðir hans var ásamt Dante dæmdur í útlegð og Petrarca ólst því upp í Avignon í Frakklandi. Hann lærði í Montpellier og Bologna. Hann er einkum þekktur fyrir ljóð ort á ítölsku og ýmis rit á latínu um aðskiljanleg efni eins og sögu, guðfræði og siðfræði. Þekktastur er hann fyrir að hafa ort á ítölsku en langmest af ritum hans er þó á latínu, enda var hann ötull talsmaður rannsókna á ritum fornmanna og er þannig frumkvöðull fornmenntastefnunnar sem varð einkenni endurreisnarinnar.