Frúarkirkjan í Ágsborg

Frúarkirkjan í Ágsborg er dómkirkja í lúterskum sið í borginni Ágsborg í Þýskalandi. Hún er óvenjuleg í laginu, enda er kór hennar stærri en skipið.

Vesturkór og turnar Frúarkirkjunnar. Austurkórinn sést ekki (til vinstri út úr myndinni).
Bronsdyrnar eru orðnar nærri 1000 ára gamlar
Háaltari Maríukapellunnar

Saga Frúarkirkjunnar

breyta

Fyrirrennari kirkjunnar er frá 4. öld, er kristni varð að ríkistrú í Rómaveldi. Önnur kirkja reis á staðnum á 8. öld og var hún þá dómkirkja. Kirkja sú skemmdist hins vegar talsvert í árás Ungverja og hrundi hún 994. Núverandi kirkja var hins vegar reist á 11. öld og vígð 1065. Hér var um miðhlutann að ræða, kirkjuskipið. Á 14. öld var austurkórinn bættur við og strax á eftir hinn stóri vesturkór, sem var vígður 1431. Við það fékk kirkjan ákaflega einkennilegt útlit, með kirkjuskip fyrir miðju og kór á sitthvorn endann. Vesturkórinn er ívið hærri í loftinu en skipið, sem er ákaflega óvenjulegt. Tveir turnar eru fyrir miðju skipinu og eru þeir 62 metra háir. Kirkjan öll er hins vegar 113 metra löng. Í siðaskiptunum ruddist múgur manna inn í kirkjuna og eyðilagði listaverk og myndir. Í kjölfarið var hún lútersk og svo er enn. Eftir það var hún skreytt með nokkrum listaverkum á ný. Frúarkirkjan slapp nánast við allar eyðileggar í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari. Hún var gerð upp á síðustu árum 20. aldar og fékk þá nýjar bronsdyr þar sem gengið er inn í kórinn.

Listaverk

breyta

Mörg listaverk eru í Frúarkirkjunni, t.d. stór freska af heilögum Kristófórusi. Flest listaverk og myndir voru eyðilögð í siðaskiptunum, þannig að þau sem í kirkjunni eru í dag eru mörg hver ný af nálinni.

Bronsdyrnar

breyta

Aðaldyr kirkjunnar eru úr bronsi og eru meðal merkustu bronsdyra í rómönskum stíl í Evrópu. Hurðarvængirnir eru tveir og eru þeir misstórir. Þeir voru búnir til 1065 og eru næstelstu bronshurðir Þýskalands. Hvor um sig eru þær bræddar saman úr rúmlega 30 minni plötum með kristilegu myndefni. Dyrnar voru teknar af árið 2002 og hreinsaðar, enda orðnar sótugar eftir tæp 1000 ár. Þær voru settar á aftur 2004.

Maríukapellan

breyta

Maríukapellan í Frúarkirkjunni var ekki smíðuð fyrr en 1720-21, sem er óvenjulegt, þar sem lúterska kirkjan er varla með nokkura Maríudýrkun. Altarið er frá 11. öld, frá því er kirkjan sjálf var byggð. Hjarta kapellunnar er hin mikla altaristafla sem stendur á súlum. Hún skartar styttu af Maríu mey og ýmsu öðru skrauti. Styttan af Maríu er úr sandsteini. Maríukapellan er eini hluti kirkjunnar sem varð fyrir skemmdum í loftárásum 1944. Lokað var fyrir rýmið í nokkra áratugi, en 1987-88 var Maríukapellan loks gerð upp. Veggmyndirnar eru því eftirlíkingar.

Heimildir

breyta