Flugslysið á Eyjafjallajökli 1944
Flugslysið á Eyjafjallajökli 1944 varð 16. september það ár þegar sprengjuflugvél frá bandaríska flughernum með tíu manna áhöfn brotlenti ofarlega á norðanverðum Eyjafjallajökli. Vélin var af gerðinni Boeing B-17 "Fljúgandi virki" og var á leið til Englands en hafði lent á Keflavíkurflugvelli til að taka eldsneyti. Innan við klukkutíma eftir að hún tók aftur á loft lenti vélin í miklu niðurstreymi og brotlenti á jöklinum með þeim afleiðingum að annar vængur vélarinnar rifnaði af og eldur kom upp í hreyflum hennar. Öll áhöfnin komst lífs af óslösuð og forðaði sér fljótlega úr vélinni, sumir skólausir, af ótta við sprengihættu. Mennirnir húktu bakvið klett skammt frá, vafðir inn í fallhlífar til að halda á sér hita, þangað til eldurinn dó út. Eftir það komu þeir sér fyrir inn í búki vélarinnar en reyndu að gera vart við sig með neyðablysum. Fólk í bæjum í kring varð blysanna vart en taldi að um væri að ræða aðgerðir á vegum hersins og aðhöfðust því ekki.[1][2]
Eftir tveggja daga erfiða vist í flakinu, sem fennti nánast í kaf, lögðu þeir af stað niður af jöklinum, bundnir saman með línu úr fallhlífum. Siglingafræðingur vélarinnar, Steven A. Memovich, stjórnaði ferðinni niður sprunginn jökulinn og snarbratt klettabelti Smjörgiljanna. Á láglendinu tók kalsöm ferð yfir Markarfljótið við að bænum Fljótsdal sem er innsti bærinn í Fljótshlíð.[3] Sex úr áhöfninni komust að Fljótsdal eftir 13 klukkutíma göngu en hinir fjórir láu úti um nóttina og var bjargað daginn eftir af heimamönnum.[2]
60 árum eftir slysið, heimsótti Steven slystaðinn að nýju ásamt börnum sínum og beltaflokki Hjálparsveitar skáta í Reykjavík.[3][1]
Sjá einnig
breytaHeimildir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „WWII flyer returns to glimpse his past“. The White Falcon. 8. september 2004. Sótt 31. desember 2018.
- ↑ 2,0 2,1 „Stormasamt flug“. Morgunblaðið. 16. júní 1996. Sótt 31. desember 2018.
- ↑ 3,0 3,1 „Slysstaður heimsóttur að nýju“. Morgunblaðið. 15. september 2004. Sótt 31. desember 2018.