Flugslysið á Eyjafjallajökli 1952

Flugslysið á Eyjafjallajökli 1952 varð 16. maí það ár þegar björgunarflugvél frá hinu bandaríska Varnarliði með fimm manna áhöfn brotlenti á Eyjafjallajökli. Vélin var af gerðinni Grumman Albatross og var á leið frá Keflavíkurflugvelli austur á land til að aðstoða bilaða flugvél. Björgunarmenn komust við illan leik á slysstað tveimur og hálfum sólahring seinna og fundu einn úr áhöfninni látinn í flakinu en hinir fjórir fundust ekki þrátt fyrir mikla leit.[1] Ummerki á slysstað bentu til þess að áhöfnin hefði reynt að koma upp neyðarloftneti en einnig sáust spor sem lágu frá flakinu og norður á Gígjökul.

Grumman Albatross-flugvél, svipuð þeirri sem fórst.

Árið 1964 fundust líkamsleifar eins mannanna ásamt giftingarhring úr gulli á jöklinum.[2] Líkamsleifar hinna þriggja fundust á jöklinum 20. ágúst 1966.[3][4]

Í september 1995 gengu félagar í Hjálparsveit skáta fram á brak vélarinnar þar sem það var að koma undan jöklinum um 800 metrum neðan við þann stað sem vélin brotlenti.[5]

Sjá einnig

breyta

Heimildir

breyta
  1. „Ameríska björgunarflugvélin fannst uppi á Eyjafjallajökli í gær“. Alþýðublaðið. 20. maí 1952. Sótt 30. desember 2018.
  2. „Fundu leifar af mannslíkama á Eyjafjallajökli“. Alþýðublaðið. 26. maí 1964. Sótt 30. desember 2018.
  3. „Þrjú lík bandarískra flugmanna fundust uppi á Eyjafjallajökli“. Tíminn. 22. ágúst 1966. Sótt 30. desember 2018.
  4. „Lík bandarískra flugmanna finnast á Eyjafjallajökli“. Þjóðviljinn. 22. ágúst 1966. Sótt 30. desember 2018.
  5. „Flugvél kemur undan jökli“. Morgunblaðið. 19. september 1995. Sótt 30. desember 2018.