Shenyang
Shenyang (eða Shen-yang ) (kínverska: 沈 阳; rómönskun: Shěnyáng) er höfuðborg Liaoning héraðs í Alþýðulýðveldinu Kína. Borgin er byggð á flatri láglendissléttu í mið-norðurhluta Liaoning héraðs, við rætur Changbai-fjalla og í jaðri hinnar víðáttumiklu Mansjúríu-sléttu. Shenyang er miðstöð viðskipta og verslunar, samgangna, mennta og menningar í Norðaustur Kína. Hún er ein mesta iðnaðarborg Kína.
Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Shenyang um 9,1 milljónir manna. Borgin var áður þekkt undir heitinu Fengtian (eða Manchu, Mukden).
Saga Shenyang borgar verður rakin í meira en 2.000 ár. Mansjú þjóðin lagði undir sig borgina á 17. öld og notaði hana stuttlega sem höfuðborg Tjingveldisins eða Mansjúveldisins. Tími Tjingveldisins (1636 - 1912) er farsælasta tímabil borgarinnar enda átti keisarafjölskyldan ættir að til Mansjúríu þar sem borgin er. Í borginni eru margir sögulegir staðir sem vísa til þessa tíma: Keisarahöllin í Shenyang, fyrrum konungsbústaðir, keisaragrafir, hof og pagóður.
Að sama skapi varð borgin vitni að myrkrum tíma í sögu Kína í stríði Rússlands og Japanska keisaradæmisins 1904–05, sem var í Shenyang (þá Mukden) og færði Japan ítök í Mansjúríu. Japan tók yfir borgina 1931. Þegar þeir gáfust uppgjöf árið 1945 var Shenyang áfram vígi lýðveldishersins en kommúnistar náðu borginni árið 1948.
Staðsetning
breytaShenyang borg er staðsett í mið-norðurhluta Liaoning héraðs og er fjölmennasta borg í Norðaustur Kína (sem áður hét Mansjúría). Borgin er staðsett í suðurhluta hinna víðáttumiklu Norðaustur-sléttu (Mansjúríu-sléttuna) norðan við Hun-fljót, sem er stærsta þverá Liao-fljóts. Borgin er byggð á flatri láglendissléttu, þar sem land rís til austurs í átt að skógi vöxnum hlíðum Changbai-fjalla.
Saga
breytaSaga Shenyang borgar verður rakin í meira en 2.000 ár. Frá tímum Hanveldisins (206 f.Kr. – 220 e.Kr.) hefur vatnasvæðið við Liao fljót verið byggt af innflytjendum Han-kínverja frá héruðunum Hebei og Shandong. Á Vestur Han tímabilinu var á svæðinu sett upp fylki að nafni Houcheng sem nú er Shenyang borg. Aðrir hlutar Mansjúríu voru lengi undir stjórn ýmissa hirðingjaflokka og ættbálka, þar sem Mansjú þjóðin var fyrirferðamest.
Á 10. öld var Shenyang, þá undir nafninu Shenzhou, orðin að landamærastöð Khitan-ríkis, sem varð að Liao-veldinu (907–1125). Suðurhluti Mansjúríu var sigraður af Jin þjóðum 1122–1123 og öld síðar af Mongólum, sem um 1280 höfðu lokið landvinningum sínum um allt Kína og stofnað Júanveldið (1206–1368). Mongólar gáfu borginni nafnið Shenyang. Mingveldið hrakti síðan Mongóla burt af svæðinu árið 1368.
Mansjú þjóðin lagði undir sig borgina á 17. öld. Þeir kölluðu borgina Mukden (sem á mansjú máli þýðir „Stórkostlegt stórborg“). Hún varð stuttlega höfuðborg Mansjúveldisins eða Tjingveldisins en þegar Mansjú keisaraveldið leysti Mingveldið af hólmi og stofnaði Tjingveldið (1644–1912), gerðu þeir fyrrum höfuðborgar Mingveldisins í Beijing að höfuðstað.
Tími Tjingveldisins (1636 - 1912) er farsælasta tímabil borgarinnar enda átti keisarafjölskyldan ættir að til Mansjúríu þar sem borgin er. Mukden borg (nú Shenyang) hélt mikilvægi sínu sem eldri höfuðborg hins ríkjandi ættarveldis. Þar voru keisaragrafir, fyrrum keisarahöll og aðrir konungsbústaðir, hof og pagóður. Í borginni eru í dag margir sögulegir staðir sem vísa til þessa tíma og með þekktustu minnisvörðum Kína. Grafhýsi í borginni frá tímum Mingveldisins og Tjingveldisins eru nú á heimsminjaskrá UNESCO.
Borgin óx jafnt og þétt, sérstaklega á síðari hluta 19. aldar og fram á 20. öld. Tvennt þrýsti á breytingar í borginni og í Liaoning héraði. Annars vegar voru afskipti erlendra aðila - rússneskra og síðar japanskra. Hins vegar var stóraukinn fjöldi kínverskra innflytjenda. Þetta leiddi af sér mikinn hagvöxt. Á fyrri hluta 20. aldar fjölgaði íbúum héraðsins gríðarlega.
Rússar byggðu á árunum 1896 til 1903 Suður- Mansjúríu járnbrautina sem tengdist borgum nálægra héraða, sem og Trans-Síberíu lestarkerfinu. Rússland og Japan kepptust um yfirráð í Mansjúríu eftir 1895 og varð Mukden borg (Shenyang) óhjákvæmilega einn af lykilstöðum enda borgin orðin rússneskt vígi. stríð Rússlands og Japanska keisaradæmisins 1904–05, sem var háð í Mukden (Shenyang) færði Japan síðan ítök í Mansjúríu.
Snemma á 20. áratugnum tók kínverski stríðsherrann Zhang Zuolin, skjólstæðingur Japana og með aðsetur í Mukden borg, þátt með öðrum stríðsherrum í baráttunni um stjórnun Beijing. Hann var síðar yfirbugaður af her Lýðveldishernum. Japan hertóku borgina árið 1931 og breyttu nafni borgarinnar í Fengtian. Þegar þeir gáfust uppgjöf árið 1945 var borgin vígi Lýðveldishersins þar til kommúnistar náðu henni árið 1948. Shenyang varð þá grunnur að frekari landvinningum kommúnista á öllu meginlandi Kína.
Stjórnsýsla
breytaStjórnsýslusvæði borgarinnar nær til tíu borgarsvæða, fylkisborgarinnar Xinmin og tveggja sýslna: Kangping og Faku.
Árið 2020 þegar síðasta manntal var gert í Kína, var íbúafjöldi borgarkjarna Shenyang 7.665.638 en íbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar var 9.070.093.
Shenyang er einnig aðalborg í einni helstu borgarþyrpinga Kína, eða á svokölluðu „Stór-Shenyang borgarsvæði“, sem eru borgir staðsettar í mið-suðurhluta Liaoning héraðs. Íbúar þar eru um 27 milljónir. Til þyrpingarinnar teljast borgirnar Shenyang, Dalian, Benxi, Liaoyang, Anshan, Yingkou, Pulandian, og Gaizhou.
Efnahagur
breytaShenyang er ein mesta iðnaðarborg Kína. Stóriðja hefur byggst þar upp allt frá þriðja áratug síðustu aldar. Borgin gegnir mikilvægu hlutverki í áætlun kínverskra yfirvalda um endurreisn norðaustursvæðis. Borgin hefur verið að auka fjölbreytni í iðnaði og auka hlut sinn í þjónustugeirann. Vaxandi atvinnugreinar borgarinnar eru í hugbúnaði, bifreiðframleiðslu og framleiðslu raftækja.
Meginframleiðsla í borginni eru vélar og tilbúnir málmar. Framleiddar eru margvíslegar vélar, vírar og kaplar, sement, margskonar efnaframleiðsla, tilbúinn áburður og lyf. Bræðsla málma, kopars, sinks, blýs og mangan er einnig umfangsmikil í borginni. Þá er ótaldar mjölverksmiðjur, pappírsverksmiðjur, sápu- og leðurverksmiðjur, textílverksmiðjur og glerframleiðsla.
Vísindi og rannsóknir
breytaShenyang hefur lengi starfað sem mennta- og menningarmiðstöð Norðaustur Kína. Borgin hýsir meira en 20 háskóla og framhaldsskóla, þar á meðal hinn virta Liaoning-háskóla, Tækniháskóla Norðaustur-Kína, Norðaustur Verkfræðiskólann, Norðaustur fjármála og hagfræðistofnunina, og tvo læknisháskóla.
Með tugir vísindarannsóknarstofnana í borginni er Shenyang einnig stórborg á sviði vísinda.
Samgöngur
breytaSamhliða nálægum borgum þjónar Shenyang sem flutnings- og viðskiptamiðstöð Norðaustur Kína við nágrannaríkin, einkum Japan, Rússland og Kóreu. Borginni er ein af leiðandi járnbrautarmiðstöðvum Kína. Hún hefur tvær lestarstöðvar og er tengd mjög öflugu lestarneti, meðal annar við nokkrar línur háhraðalesta til stærri borga Kína. Innan borgarinnar er nýbyggt marglínu snarlestakerfi.
Við borgina er öflugt vegakerfi með 6 hringvegum um borgina og hraðbrautum til nágrannaborga og héraða
Shenyang Taoxian alþjóðaflugvöllurinn sem er um 20 km suður af borginni, var opnaður árið 1989: Hann er einn af fjölfarnari flugvöllum Kína. Árið 2018 fóru um völlinn um 19 miljónir farþega.
Tenglar
breyta- Ensk vefsíða borgarstjórnar Shenyang Geymt 14 september 2017 í Wayback Machine.
- Ensk vefsíða Encyclopaedia Britannica um Shenyang.
- Vefsíða Travel China Guide um Shenyang borg.. Ferðahandbók fyrir borgina: Almennar upplýsingar, samgöngur, helstu ferðamannastaði, veður o.fl.