Fantasio se marie
Fantasio se marie (Íslenska Valur í hnapphelduna) er níunda bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2016. Höfundur og teiknari sögunnar er Belginn Benoit Feroumont. Bókin hefur enn ekki komið út á íslensku.
Söguþráður
breytaSagan hefst á svarthvítu endurliti til ára síðari heimsstyrjaldarinnar í Brüssel. Mæðgur eru á flótta undan liðsmönnum Gestapo. Með hjálp töfrahálsfestar tekst dótturinni að breyta sér í smástúlku, en hermenn koma aðvífandi áður en móðirin nær að gera slíkt hið sama og taka þeir hana höndum. Ung stúlka í nálægu húsi fylgist furðulostin með atburðunum.
Frásögnin færist aftur til samtímans. Valur dregur Sval með sér á ritstjórnarskrifstofu frægustu tískublaða borgarinnar og er afar leyndardómsfullur. Í ljós kemur að hann er trúlofaður stúlku að nafni Clothilde Gallantine, dóttur aðaleiganda tískublaðakeðjunnar og brautryðjanda á sviði hátísku. Fundur þeirra með frú Gallantine er þó truflaður, þegar innbrotsþjófur rænir verðmætri hálsfesti af ritstjórnarskrifstofunni um hábjartan dag og stingur þá Sval og Val af. Svalur er miður sín yfir að hafa ekki náð að stöðva þjófinn, en frú Gallantine virðist furðuróleg og afþakkar frekari aðstoð hans.
Valur og Clothilde hefja saman búskap og Svalur býr sig undir nýtt líf án sambýlismanns og félaga í ævintýrum. Bitla kemur þá aðvífandi og krefst þess að flytja inn og taka stöðu Vals. Sambúðin gengur misjafnlega, en saman velta þau þó vöngum yfir hinu dularfulla hálsfestarhvarfi. Þau átta sig á að hálsfestin er í þremur hlutum og grunar þegar að þjófurinn sé á höttunum eftir öðrum hlutan hennar, sem einmitt stendur til að sýna á tískusýningu. Það er eins og við manninn mælt að þjófurinn dularfulli, sem reynist vera kona, lætur til skarar skríða þegar sýningin stendur sem hæst. Eftir æðisgenginn eltingaleik við harðsvíraða lögreglukonu og Sval, sleppur þjóðurinn undan þar sem Svalur neyðist til að hjálpa ungri konu í barnsnauð.
Skömmu síðar er Svalur gestur í samkvæmi heima hjá Val og Clothilde. Valur játar fyrir Sval að kostnaðurinn við hið fyrirhugaða brúðkaup sé kominn úr böndunum. Hann hafi því þegið peninga frá móður Svals. Svalur bregst æfur við þessum fregnum, segir honum að koma ekki nálægt móður sinni og þiggja enga fjármuni frá henni, því þeir séu illa fengnir. Svalur og Bitla yfirgefa samkvæmið og hún spyr hann út í móður hans. Svalur upplýsir að afi sinn hafi auðgast mjög á stríðsárunum með þjófnaði og svikum. Snögglega rennur upp fyrir honum ljós, að þriðji hluti hálsfestarinnar sé í fórum móður hans.
Svalur heldur á fund móður sinnar sem hann hefur ekki talað við í áraraðir. Meðan á samtali þeirra stendur kemur þjófurinn dularfulli aðvífandi og heimtar þriðja og síðasta hluta hálsfestarinnar, en Svalur hefur einmitt uppgötvað að hún sé hinn réttmæti eigandi og dóttir konunnar sem í sögubyrjun hafði beitt festinni til að yngja sig upp. Þjófurinn brunar af stað, en kemst ekki langt, þar sem lögreglukonan harðskeytta hefur hendur í hári hennar. Lögreglukonan reynist vera á launum hjá frú Gallantine og færir henni hálsfestarhlutana þrjá.
Í ljós kemur að frú Gallantine var unga stúlkan sem áratugum áður hafði orðið vitni að töframætti hálsfestarinnar. Með hana að vopni hyggst hún verða vellrík á að selja auðkonum eilífa æsku. Sú tilraun endar þó með ósköpum. Auðkonurnar verða eldri og ófrýnilegri, þar sem frú Gallantine kunni ekki að beita hálsfestinni á réttan hátt. Frú Gallantine endar í fangelsi, en réttu eigendurnir endurheimta hálsfestina og halda til Montréal þar staða himintunglanna er hárrétt til að yngingarmáttur hennar virki.
Í sögulok er Valur niðurbrotinn maður eftir að Clothilde hefur varpað honum á dyr og slitið trúlofuninni.
Fróðleiksmolar
breyta- Sagan er einstök í röð Svals og Vals-bóka hvað varðar fjölda kvenpersóna, en að Sval og Val frátöldum eru nær allar persónurnar konur.
- Fátt í fyrri sögum bendir til að Svalur eigi móður á lífi og hefur raunar verið gefið sterklega í skyn að hann sé munaðarlaus.
- Bitlu og Sval er teflt fram sem skýrum andstæðum í sögunni, þar sem hún er tæknisinnuð og nútímavædd, en hann fastur í fortíðinni og tísku fyrri áratuga.