Fémina Sport er íþróttafélag kvenna í París sem stofnað var árið 1912. Það var langöflugasta kvennaknattspyrnulið Frakklands á fyrsta hluta tuttugustu aldar.

Fémina Sport var stofnað af tveimur íþróttakennurum, Auguste Sandoz og Pierre Payssé. Af öðrum íþróttakonum sem voru áberandi í starfi félagsins í fyrstu voru systurnar Jeanne og Thérèse Brulé, sem og Suzanne Liébrard sem var ein öflugasta frjálsíþróttakona Frakklands á árunum í kringum 1920. Árið 1918 tókst stjórnendum félagsins að sannfæra iðnjöfurinn og stjórnmálamanninn Julien Bessonneau um að fjármagna byggingu íþróttavallar sem kenndur var við Élisabeth, eiginkonu athafnamannsins.

Árið 1917 er getið um knattspyrnuleik milli tveggja liða skipuðum félagskonum í Fémina Sport, sem leidd voru af Thérèse Brulé og Suzanne Liébrard. Er það fyrsti þekkti knattspyrnuleikur kvenna í Frakklandi.

Frá 1918 til 1922 lék Fémina Sport fjölda leikja víðs vegar um Frakkland til að vekja athygli á kvennaknattspyrnu. Fyrsta franska meistaramótið, sem þó var einungis opið liðum frá París, fór fram veturinn 1918-19 og lauk með sigri Fémina Sport sem lagði Parísarliðið En Avant að velli. Félagið varð aftur meistari árin 1923, 1924 og samfleytt frá 1926 til 1932, tíu sinnum í allt.

Árið 1925 hélt Fémina Sport í keppnisferð um England og lék þar nokkra leiki.

Skömmu fyrir seinni heimsstyrjöldina félagið æfingar á handbolta og voru skráðar félagskonur um 2.000 talsins. Á stríðsárunum neyddist Fémina Sport til að láta íþróttaleikvang sinn af hendi og þurfti að byggja félagið upp nánast frá grunni að stríðinu loknu. Félagið varð Frakklandsmeistari í körfuknattleik árið 1946 og vann nokkra meistaratitla í handbolta snemma á sjötta áratugnum.

Heimildir

breyta