Everglades
Everglades eru hitabeltisvotlendi í suðurhluta Flórída í Bandaríkjunum. Þau ná yfir suðurhlutann á stóru afrennslissvæði og eru hluti af hitabelti nýheims. Upptök votlendisins eru sunnan við Orlando þar sem Kissimmee-fljót rennur út í Okeechobee-vatn, sem er stórt og grunnt stöðuvatn. Á regntímanum myndar útfallið úr vatninu hægfara flóð 97 km á breidd og 160 km á lengd sem rennur í suður til Flórídaflóa. Veður er mjög breytilegt í Everglades, allt frá þurrkum á þurrkatímum til flóða á regntímanum. Flókið samspil ólíkra vistkerfa einkennir svæðið, þar á meðal sýprusmýrar, fenjaskógur við Tíu þúsund eyjar, harðviðarlundir, barrtrjáaklettar og sjávarsvæðið í Flórídaflóa.
Menn hafa búið í Everglades í 15.000 ár. Ættbálkar Calusa- og Tequesta-ættbálkar indíána bjuggu þar fyrir komu Evrópumanna. Seminólar hröktust þangað eftir Fyrsta Seminólastríðið 1817-1818 og héldu þar áfram andspyrnu gegn Bandaríkjastjórn. Eftir Annað Seminólastríðið 1842 voru flestir Seminólar fluttir frá Everglades. Fljótlega eftir það komu fram hugmyndir um að þurrka votlendið upp í þágu landbúnaðar. Það var þó ekki reynt af alvöru fyrr en undir lok 19. aldar. Á fyrri hluta 20. aldar voru grafnir skurðir og árið 1947 var Mið- og Suður-Flórídaverkefnið stofnað. Innan þess voru grafnir 2300 metrar af skurðum og vatni veitt til landbúnaðarsvæða og borga eins og Miami sem óx hratt á þessum tíma. Á þurrkaða landinu var aðallega ræktaður sykurreyr. Um helmingi Everglades hefur verið breytt í landbúnaðarland eða þéttbýli. Árið 1934 var hluti svæðisins keyptur af fylkisstjórninni og Everglades-þjóðgarðurinn stofnaður.
Um 1970 tóku umhverfisverndarhreyfingar að bregðast við þessari hröðu þróun. Everglades voru skilgreind sem alþjóðlega mikilvægt votlendi í Ramsarsamningnum og sem heimsminjar hjá UNESCO. Bygging flugvallar 10 km norðan við Everglades-þjóðgarðinn var stöðvuð þegar í ljós kom að hann myndi hafa neikvæð áhrif á vistkerfi svæðisins. Árið 2000 var Heildaráætlun um endurheimt Everglades samþykkt af Bandaríkjaþingi til að takast á við vandamál eins og versnandi vatnsgæði og minnkað flæði vatns inn á svæðið þar sem svo miklu hefur verið veitt annað. Á svæði Everglades er samnefndur þjóðgarður; Everglades-þjóðgarðurinn.