Etrúska

(Endurbeint frá Etrúríska)

Etrúska var tungumál talað á Norður-Ítalíu fyrir innrás Rómverja. Það getur hugsast að etrúska deili uppruna með lemnísku og retísku sem heitir frumtyrsenska (eða frumtyrrenska).[1]

Stafróf Etrúra kom frá Grikkjum. Lengsti samfelldi texti sem varðveist hefur er einungis 300 orð.

Af kunnuglegum orðum sem eru ef til vill af etrúskum uppruna má nefna orðið „persóna“ sem er komið úr latneska orðinu persona sem merkti gríma en það er hugsanlega komið frá etrúska orðinu fersu sem merkti gríma.[2]

Rétt eins og Rómverjar þá voru Etrúrar innfæddir íbúar Ítalíuskagans, en ekki aðfluttir frá Litlu-Asíu, eins og sögusagnir herma. Á 6. öld f.kr. höfðu þeir komið upp tólf borgríkjum um miðjan Ítalíuskagann. Menningaráhrif þeirra teygðu sig alla leið suður að Napólí og voru þeir töluvert stærri en nágrannar sínir, Rómverjar.

Etrúrar voru fyrsta menningarþjóðin á Ítalíuskaganum sem lærði að skrifa. Í framhaldi af því deildu þeir kunnáttu sinni með öðrum þjóðum, m.a. Rómverjum. Aldrei hefur verið gerð fyllilega grein fyrir því að etrúska tungumálð tengist á nokkurn hátt öðrum tungumálum jarðar. Vandamálið er að það hefur einfaldlega ekki fundist nógu mikill samfelldur texti til þess að geta greint tungumálið almennilega. Þó er vitað um svipaða stafi og orð úr fönísku, en þau eru afar stutt og fá og hefur því fræðimönnum ekki tekist að þýða etrúska tungumálið nógu vel.

Framburður

breyta

Í þessari töflu er gerð grein fyrir hinum ýmsu breytingum sem gerðar hafa verið á etrúska stafrófinu. „Hefðbundin etrúska“, sem var meira eða minna eins og evboísk gríska, var ekki töluð en aftur á móti notuð við kennslu þeirra sem gátu lesið. „Forn-etrúska“ stafrófið var í notkun frá 8. öld til 4. aldar f.kr. áður en Etrúrar urðu hluti af Rómaveldi. „Síðetrúska“ var notuð frá 4. öld f.kr. fram á 1. öld e.kr þegar tungumálinu var meira eða minna skipt út fyrir latínu og dó svo út í kjölfarið.

Eins og taflan sýnir þá er etrúska stafrófið upprunnið úr evboísk-grísku stafrófi. Það útskýrir tilurð stafanna F og Q og einnig notkunina á H fyrir [h]-hljóðið og X fyrir [ks]-hljóðið. Lögun bókstafana og átt rituninnar benda til þess að stafrófið hafi verið teiknað í þessari mynd fyrir almenna stöðlun gríska stafrófsins.

 

Etrúska tungumálið hafði ekki eins mikið af hljóðum og það gríska, þannig að jafnvel þó Etrúrar hafi notast við gríska stafrófið þá notuðu þeir alls ekki alla bókstafina (t.d. B, Δ, Ζ, Ο). Þar að auki breyttu þeir hljómi bókstafsins Γ yfir í [k] hljóð sem varð til þess að í dag eru bókstafirnir orðnir þrír sem standa fyrir það hljóð, C, K, og Q. Etrúrar ákváðu að nota þá alla en í mismunandi samhengi: K kemur á undan A, C á undan I og E, og Q á undan V.

Bókstafurinn F stóð fyrir annað hvort [w]- eða [v]-hljóðið, eins og í evboískri grísku, en Etrúrar höfðu engu að síður [f]-hljóðið. Snemma í myndun stafrófsins var stafurinn   (HF) notaður til þess að skrifa [f]-hljóðið en var seinna meira skipt út fyrir bókstafinn 8.

Áhrif

breyta

Etrúska stafrófið varð grunnurinn að fjölda annara stafrófa, eins og til dæmis oskanska stafrófsins, úmbríska stafrófsins og hugsanlega rúnaleturs. Latneska stafrófið, sem varð að einu útbreiddasta stafrófi heims, er afkomandi etrúska stafrófsins.

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Vísindavefurinn. Er vitað hvaða málaætt etrúska tilheyrði og eru einhver nútímamál skyld henni?
  2. Á hinn bóginn getur einnig verið að latneska orðið persona sé myndað af forskeytinu per- og sögninni sono en sögnin persono merkir að gefa frá sér hljóð í gegnum eitthvað.

Heimildir

breyta
  • Fagan, Garreth. History of Rome (fyrirlestur).
  • Rodgers, Nigel og Dr. Hazel Dodge FSA. Roman Empire

Tenglar

breyta