Eiríksstaðir
Eiríksstaðir eru fornar rústir í landi Stóra-Vatnshorns í Haukadal í Dalasýslu. Samkvæmt Landnámu og Eiríks sögu rauða bjuggu Eiríkur rauði Þorvaldsson og kona hans Þjóðhildur Jörundardóttir að Eiríksstöðum og hafa verið leiddar að því líkur að það sé sami staður og þekktur er sem Eiríksstaðir í dag þó það hafi ekki verið sannað með óyggjandi hætti. Rústir Eiríksstaða eru friðlýstar fornleifar. Þar hafa verið gerðar fornleifarannsóknir sem leiddu í ljós skála og jarðhús frá víkingaöld. Á Eiríksstöðum hefur verið reistur tilgátubær sem byggir á rannsókn skálans.
Búseta Eiríks rauða á Eiríksstöðum
breytaÍ Eiríks sögu rauða segir að Eiríkur rauði hafi búið á Eiríksstöðum hjá Vatnshorni en vegna vígaferla hafi hann hrökklast þaðan burt. Þrælar hans felldu skriðu á bæ Valþjófs á Valþjófsstöðum, sem varð til þess að Eyjólfur saur, frændi Valþjófs drap þrælana. Eiríkur hefndi þrælanna og drap Eyjólf og frænda hans, Hólmgöngu-Hrafn. Eftir þetta var Eiríkur rekinn á brott úr Haukadal.[1]
Fornleifarannsóknir
breytaÞað hafa verið gerðar nokkrar fornleifarannsóknir á Eiríksstöðum í gegnum tíðina. Sá sem fyrstur varð til að rannsaka staðinn svo vitað sé, var Brynjúlfur Jónsson en hann kom á Eiríksstaði árið 1894 og gerði uppdrátt af tóftinni. Árið eftir, 1895 kom Þorsteinn Erlingsson og gróf rústirnar upp. Daniel Bruun kannaði staðinn árið 1896. Árið 1938 gróf svo Matthías Þórðarson þáverandi þjóðminjavörður í rústina. Í þessum rannsóknum fannst skáli með langeldi í miðju hússins.[2] Árið 1997 hóf Þjóðminjasafn Íslands uppgröft á rústinni að ósk Eiríksstaðanefndar. Rannsóknin var undir stjórn Guðmundar Ólafssonar og lauk henni árið 2002.[3]
Skáli
breytaÞegar Þorsteinn Erlingsson gróf upp rústina taldi hann að þarna hefðu verið tvö sambyggð hús, skáli og bakhús. Mattías Þórðarson komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að ekkert hús væri fyrir aftan skálann heldur væri þar náttúruleg skriða. Rannsóknin 1997 stafesti niðurstöðu Matthíasar. Rannsóknin árið 1997 leiddi einnig í ljós að skálinn er um 50m² að flatarmáli og 4m að breidd. Fyrir miðju er langeldur á gólfinu og leifar af steinaröðum bentu til þess að set hafi verið meðfram veggnum. Veggirnir voru um 1-1,5m þykkir og hlaðnir úr torfi með undirstöður úr grjóti. Steinar í suðurvegg benda til þess að hann hafi verið lagfærður. Byggingin er einföld að gerð og eru vísbendingar um að þar hafi ekki verið búið lengi. C-14 aldursgreining á viðarkolum úr óröskuðu mannvistarlagi fyrir utan tóftina, bendir til þess að minjarnar séu frá 9. eða 10. öld.[4]
Jarðhús
breytaÁrið 2000 var grafið upp jarðhús rétt við skálann. Í gólfi þess fannst meðal annars snældusnúður úr innfluttum tálgusteini. Guðmundur Ólafsson telur að þar hafi verið dyngja, vinnuhús kvenna.[5] Þorsteinn Erlingsson taldi á sínum tíma að þetta hefði verið baðhús en Matthíasi Þórðarsyni fannst líklegra að húsið væri soðhús eða reykhús.[6]
Tilgátubær
breytaRannsóknin 1997 var gerð að tilstuðlan Eiríksstaðanefndar. Ætlunin var að fá sem réttasta mynd af rústinni vegna endurgerðar á skálanum sem bæ Eiríks rauða. Ráðist var í gerð tilgátubæjarins árið 1999. Hann var svo vígður árið 2000 í tilefni þess að 1000 ár voru frá landafundum Leifs heppa.[7] Tilgátubærinn er um 100 m frá rústum Eiríksstaða.
Tilvísanir
breytaHeimildir
breyta- Adolf Friðriksson (1994), Sagas and popular antiquarianism in Icelandic Archaeology, Avebury: Aldershot.
- Eiríks saga rauða.[1]
- Guðmundur Ólafsson (1999), Eiríksstaðir í Haukadal. Fornleifarannsókn á skálarúst. (Þjóðminjasafn Íslands. Rannsóknaskýrslur Fornleifadeild, 1998:11)
- Guðmundur Ólafsson (2001), "Eiríksstaðir. The farm of Eiríkr the Red." Approaches to Vínland, bls. 147-153.
- Guðmundur Ólafsson og Ragnheiður Traustadóttir (1998). Rannsókn á Eiríksstöðum í Haukadal.[2] Geymt 18 september 2016 í Wayback Machine
- Landnámabók.[3]
- Leifur Eiríksson. Sótt 25. febrúar 2012 [4] Geymt 1 janúar 2012 í Wayback Machine
- Morgunblaðið/Kristjana Ágústsdóttir (3. september 2004). Fornleifarannsóknir á Eiríksstöðum í Haukadal. Sótt 25. febrúar 2012 af [5]