Edda Heiðrún Backman
Edda Heiðrún Backman (27. nóvember 1957 - 1. október 2016) var íslensk leikkona, leikstjóri og myndlistakona.
Edda Heiðrún fæddist á Akranesi og voru foreldrar hennar Jóhanna Dagfríður Arnmundsdóttir og Halldór Sigurður Backman. Edda eignaðist tvö börn leikarann Arnmund Ernst Backman og myndlistarnemann Unni Birnu Björnsdóttur.
Starfsferill
breytaHún útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum við Sund 1978 og sem leikari frá Leiklistarskóla Íslands 1983. Hún starfaði sem leikari við Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið og lék auk þess í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta allt til 2004 þegar hún greindist með MND-sjúkdóminn. Eftir það sneri hún sér að leikstjórn og rak einnig verslunina Súkkulaði og rósir á Hverfisgötu í Reykjavík á meðan heilsan leyfði.
Síðustu árin var hreyfigeta hennar mjög skert en hún hóf þá að mála listaverk með því að halda pensli í munni.
Hún var baráttukona fyrir réttindum fatlaðra og umhverfisvernd og stofnaði Rödd náttúrunnar 2016.
Viðurkenningar
breytaEdda Heiðrún hlaut fjölda viðurkenninga fyrir list sína. Hún var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2005, hún hlaut Íslensku sviðslistarverðlaunin þrisvar sinnum, þar meðtalinn heiðursverðlaun Grímunnar árið 2015. Hún hlaut Íslensku kvikmyndaverðlaunin, Edduna árið 2003, var útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2006 og árið 2008 heiðraði Alþingi Eddu Heiðrúnu með því að samþykkja hana í hóp heiðurslistamanna.