Duke Ellington

bandarískt tónskáld, píanóleikari og hljómsveitarstjóri (1899-1974)

Edward Kennedy Ellington betur þekktur sem Duke Ellington (29. apríl 189924. maí 1974) var bandarískt tónskáld, píanóleikari og hljómsveitarstjóri. Hann fæddist í Washington-borg þar sem hann hóf feril sinn sem ragtime- og djasspíanóleikari og stofnaði sína fyrstu hljómsveit 1917. Nokkru eftir að Harlem-endurreisnin hófst í upphafi 3. áratugarins fluttist hann til New York-borgar og 1932 fékk hljómsveit hans fastan samning við næturklúbbinn Cotton Club þar sem þeir léku næstu tíu árin. Cotton Club var næturklúbbur í miðju Harlem-hverfinu þar sem þeldökkir skemmtikraftar komu reglulega fram en gestir voru nær eingöngu hvítir. Að auki var vikulegur útvarpsþáttur sendur út frá staðnum sem varð til þess að skapa Ellington vinsældir erlendis. Á síðari hluta áratugarins varð dansvæn sveiflutónlist með stórsveitum vinsæl og að sama skapi minnkuðu vinsældir hinna flóknu djasstónsmíða Ellingtons. Hljómsveit hans átti þó stórleik í tónleikaferð um Evrópu rétt fyrir upphaf Síðari heimsstyrjaldar og gaf út hvern smellinn á fætur öðrum við upphaf 5. áratugarins. Eftir styrjöldina varð tónlist Ellingtons aftur undir í samkeppni við nýjar stefnur í djasstónlist þegar bebop-tónlistin kom fram á sjónarsviðið og sjónvarpið með áherslu á einsöngvara á borð við Frank Sinatra. Gullöld stórsveitanna var á enda. Á sama tíma missti hann marga lykilmenn úr hljómsveitinni.

Duke Ellington í Frankfurt am Main árið 1965.

Undir lok 6. áratugarins endurheimti Ellington vinsældir sínar að miklu leyti. Lengri tónsmíðar hans nutu velgengni meðal djassáhugafólks og 1957 tók Ella Fitzgerald upp þriggja hljómplatna verk, Duke Ellington Songbook, með hljómsveit Ellingtons. Hann fékkst líka við kvikmyndatónlist. Á 7. áratugnum átti hann samstarf við ýmsa aðra frumkvöðla djasstónlistar svo sem Count Basie, Coleman Hawkins og John Coltrane. Á sama tíma lék hann mikið um allan heim. Mörg eldri laga hans voru orðin að sígildum smellum sem öfluðu honum tekna.

Duke Ellington fékk Heiðursverðlaun Grammy-verðlaunanna 1965, Frelsisorðu Bandaríkjaforseta 1969 og varð meðlimur í Frönsku heiðursfylkingunni árið 1973.