Drekasvæðið

(Endurbeint frá Drekasvæði)

Drekasvæðið er hafsvæði í Norður-Íshafi, við Jan Mayen-hrygginn, skammt frá Jan Mayen, Svæðið er innan landhelgi Íslands og gera íslensk stjórnvöld sér vonir um að þar megi finna jarðgas og olíu. Svæðið var boðið út til olíuleitar í janúar 2009.

Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) hafa unnið að jarðfræðilegum og jarðeðlisfræðilegum mælingum vegna undirbúningsvinnu fyrir olíuleitina. Í tengslum við þessa vinnu hafa allmörg ný örnefni orðið til, bæði á hafsvæðum og hafsbotni. Raunar á það einnig við um hafsvæði suður af landinu þar sem Íslendingar gera kröfur um nýtingarrétt.

Svæðin sem hér um ræðir eru, auk Drekasvæðis, í Ægisdjúpi (Síldarsmugunni) og á Bergrisanum (Hatton-Rockall). Nöfnin á svæðunum voru sótt til íslensku landvættanna sem sagt er frá í Ólafs sögu Tryggvasonar í Heimskringlu. Drekasvæðið er nefnt eftir drekanum sem fór ofan eftir dalnum í Vopnafirði og blés eitri. Bergrisinn var nefndur eftir risanum sem gekk fram á Vikarsskeiði með járnstaf í hendi.

Frægasti dreki íslenskra bókmennta er Fáfnir og því eru mörg örnefni á Drekasvæðinu sótt í Völsungasögu. Helstu hryggir á botninum heita t.d. Fáfnir, Otur, Sigurður, Gunnar, Gjúki, Sörli og Erpur. Síðan má nefna Fáfnisrennu, Sörlabotn og Gjúkakrók.

Sjá einnig

breyta

Tenglar

breyta