Donna Strickland
Donna Theo Strickland (f. 27. maí 1959) er kanadískur ljóseðlisfræðingur og sérfræðingur í leysileiftrum. Hún hlaut Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 2018 ásamt doktorsleiðbeinanda sínum, Gérard Mourou, fyrir að uppgötva samþjappaða leifturmyndun.[1] Strickland er kennari við Háskólann í Waterloo.
Ljóseðlisfræði 20. og 21. öld | |
---|---|
Nafn: | Donna Strickland |
Fædd: | 27. maí 1959 |
Svið: | Eðlisfræði, ljósfræði, leysigeislar |
Alma mater: | McMaster-háskóli Háskólinn í Rochester |
Helstu vinnustaðir: |
Háskólinn í Waterloo |
Verðlaun og nafnbætur: |
Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði (2018) |
Æviágrip
breytaDonna Strickland útskrifaðist með meistaragráðu í eðlisverkfræði frá McMaster-háskóla árið 1981 og með doktorsgráðu í ljósfræði frá Háskólanum í Rochester árið 1989. Doktorsritgerð hennar bar titilinn „Þróun á ofurskærum leysigeisla og notkun hans við jónun margra ljóseinda“. Leiðbeinandi hennar í doktorsverkefninu var franski eðlisfræðingurinn Gérard Mourou.[2]
Frá 1988 til 1991 vann Strickland sem aðstoðarmaður hjá kanadíska rannsóknarráðinu. Hún vann síðan við leysigeisladeild ríkisrannsóknarstofu Lawrence Livermore frá 1991 til 1992 og síðan sem tæknimaður á tæknistofu fyrir rannsóknir á ljóseindum við Princeton-háskóla.[3] Árið 1997 var hún ráðin sem prófessor við eðlisfræði- og stjarnfræðideild Háskólans í Waterloo. Þar stýrði hún rannsóknarhópi sem fékkst við þróun á leiftursnöggum leysigeislum.[4]
Árið 2018 vann Strickland Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði ásamt Gérard Mourou fyrir störf sín í þróun á samþjappaðri leifturmyndun sem hófust með doktorsverkefni hennar. Strickland og Mourou deildu verðlaununum með Arthur Ashkin.[5] Með aðferðinni sem þau þróuðu varð unnt að búa til styttri og orkumeiri leysileiftur en hafði áður verið hægt. Þetta er gert með því að nota raufargler til þess að teygja á stuttum leysileiftrum, magna þau síðan upp og loks stytta þau aftur.[1] Aðferðin sem Strickland og Mourou þróuðu hefur skipt sköpum í mörgum eðlisfræðigreinum, meðal annars í kjarneðlisfræði og öreindafræði. Leysigeislatæknin hefur meðal annars nýst í algengum augnskurðaðgerðum og í meðferðum á dreri í auga.
Strickland er þriðja konan sem hefur hlotið Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði, á eftir Marie Curie (1903) og Mariu Goeppert-Mayer (1963).
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „Fyrir hvaða rannsóknir voru Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 2018 veitt?“. Vísindavefurinn.
- ↑ „Donna Strickland - Physics and Astronomy“ (enska). Háskólinn í Waterloo. 4. maí 2012. Sótt 2. júlí 2019.
- ↑ Beth Gallagher (2. október 2018). „Nobel Prize-winning physics professor follows her gut Waterloo Stories“ (enska). Waterloo Stories. Sótt 2. júlí 2019.
- ↑ „People profiles“ (enska). Ultrafast Laser Group. 2018. Sótt 2. júlí 2019.
- ↑ „Press release - The Nobel Prize in Physics 2018“ (PDF) (enska). 2. október 2018. Sótt 2. júlí 2019.