Djúpadalsá (Skagafirði)

Djúpadalsá eða Dalsá er bergvatnsá í Blönduhlíð í Skagafirði. Hún kemur úr Dalsdal eða Djúpárdal, sem gengur langt inn í Tröllaskagafjallgarðinn til austurs, sunnan við Glóðafeyki, en sunnan við ána heitir dalurinn Akradalur og tilheyrir Stóru-Ökrum. Dalurinn klofnar um Tungufjall og þar rennur Tungufjallsá í Dalsá úr norðaustri. Upptök Dalsár eru í Grænuvötnum, sem eru í um 900 metra hæð.

Í dalsmynninu, rétt hjá bænum Djúpadal, rennur Dalsáin í djúpu klettagili en þegar því sleppir taka við víðáttumiklar, þríhyrningslaga eyrar, grýttar ofan til en uppgrónar neðan til, og hefur áin flæmst fram og aftur um eyrarnar og skipt um farveg hvað eftir annað þótt nú haldi varnargarður henni í farvegi syðst á eyrunum, milli bæjanna Syðstu-Grundar og Minni-Akra. Í júlí 1954, þegar stórrigningar gengu yfir Norðurland og skriðuföllin miklu urðu í Norðurárdal og ollu miklum skemmdum á Ytri-Kotum og Fremri-Kotum, stíflaðist áin af skriðuföllum frammi á Dalsdal en braust síðan fram með miklum krafti í ofsaflóði og flæmdist þá víða um eyrarnar og olli skemmdum á gróðri og girðingum.

Á Dalsáreyrum var Haugsnesbardagi háður árið 1246 og hefur áin þá runnið mun utar en nú og vígvöllurinn verið sunnan hennar.

Heimildir breyta

  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar IV. bindi. Akrahreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2007. ISBN 978-9979-861-15-7}
  • Hallgrímur Jónasson: Árbók Ferðafélags Íslands. Skagafjörður. Ferðafélag Íslands, 1946.