Fremri-Kot
Fremri-Kot eru innsta býli í Norðurárdal við rætur Öxnadalsheiðar. Áður nefndist býlið Hökustaðir og er þess getið í Landnámabók, þar sem Örreksheiði upp frá Hökustöðum er sögð kennd við landnámsmanninn Þorbrand örrek. Örnefnið Örreksheiði er nú óþekkt.
Hökustaða er einnig getið í Sturlungu því þangað kom Eyjólfur ofsi Þorsteinsson með lið sitt á leið til Flugumýrarbrennu haustið 1253 og setti þar gæslumenn svo ekki bærist njósn þaðan um komu brennumanna. Þorgils skarði Böðvarsson kom líka við þar á leið til bardagans á Þveráreyrum 1255. Líklega breyttust nöfn Hökustaða og Þorbrandsstaða ekki í Fremri-Kot og Ytri-Kot fyrr en á 16. eða 17. öld, hugsanlega í kjölfar skriðufalla sem gætu hafa lagt jarðirnar í eyði um skeið.
Mikil skriðuföll urðu svo í Norðurárdal 6. júlí 1954 eftir stórrigningar sem gengið höfðu yfir sólarhringinn á undan. Margar skriður féllu þá á land Fremri-Kota, eyðilögðu stærstan hluta túnsins og eyddu fjárhúsi og hlöðu, hesthúsi og haughúsi. Mikill hluti þjóðvegarins eyðilagðist einnig og Valagilsá, sem rennur á landamerkjum Kota og Silfrastaðaafréttar, sópaði af sér brúnni og ruddi burt varnargarði. Húsfreyjan á Fremri-Kotum var ein heima með fimm ung börn og ætlaði hún að leita skjóls með þau í fjárhúsinu, sem hún taldi á öruggari stað en bæjarhúsið, og var komin með þau út á hlað en þá kom mikil skriða sem staðnæmdist rétt ofan við íbúðarhúsið og skemmdist það ekki, en fjárhúsið sópaðist burtu.
Systkinin og skáldin Ólína Jónasdóttir (1885–1956), Hallgrímur Jónasson (1894–1991) kennari og Frímann Ágúst Jónasson (1901–1988) skólastjóri voru alin upp á Fremri-Kotum og kennd við bæinn.
Heimildir
breyta- „Norðurferðir:Norðurárdalur“.
- „Morgunblaðið: Minning: Frímann Ágúst Jónasson“.
- Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar IV. bindi. Akrahreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2007. ISBN 978-9979-861-15-7}