Diskó-flói
Diskó-flói (grænlenska: Qeqertarsuaq tunua; danska: Diskobugten) er stór flói á vesturströnd Grænlands.
Landafræði
breytaDiskó-flóinn er stærsti flóinn á Vestur-Grænlandi, um 150 km frá norður til suðurs og 100 km frá austur til vesturs. Meðaldýpi er um 400 m og meðalhitastig sjávarins 3,5 °C, sem á veturna fer niður í -1,75 °C og hækkar síðan upp í allt að 12 °C á sumrin.[1]
Suðurhluti flóans einkennist af skerjum og smáeyjum í Aasiaat skerjagarðinum. Qasigiannguit og Ilimanaq eru helstu byggðirnar við suðvesturströnd flóans, rétt sunnan við llulissat-ísfjörðinn. Norðan við fjörðinn er þriðja stærsta byggðarlag Grænlands, Ilulissat. Frá norðri afmarkast flóinn af Diskó-eyju, sem er stærsta eyjan við Grænlandsstrendur.
Ilulissat-ísfjörðurinn
breytaIlulissat-ísfjörðurinn (Ilulissat Kangerlua) er 40 kílómetra langur, um 7 km breiður og 1200 m djúpur fjörður sem byrjar við Grænlandsjökul og liggur út í Diskó-flóa. Fjörðurinn er mjög sérkennilegt náttúrufyrirbæri enda fullur af ísjökum allt árið. Skriðjökullinn, sem á dönsku er nefndur Jakobshavn Isbræ og Sermeq Kujalleq á grænlensku skríður út í botn fjarðarins í austri. Þessi skriðjökull skilar frá sér mesta ísmagni allra skriðjökla á norðurhveli jarðar. Hann mjakast fram um 20-35 metra á dag og skilar um 20 miljónum tonna af ís út í fjörðinn á hverju ári. Ísjakarnir eru allt að 1000 metra háir og standa um 150 metra upp úr hafinu. Vegna þrýstings frá skriðjöklinum og sjávarfalla fljóta ísjakarnir smám saman út fjörðinn, í mynni fjarðarins er hins vegar jökulgarður sem veldur því að þar er dýpið einungis um 300 metrar. Stóru ísjakarnir stranda því þar en bráðna og brotna smám saman og fljóta áfram út í Diskó-flóa. Berast ísjakarnir þá fyrst norður um Baffinsflóa med Vesturgrænlandsstraumi og síðan suður með kanadísku eyjunum og að lokum með Labradorstraumi út í Atlantshafið. Stærstu ísjakarnir þrauka allt þar til þeir eru komnir suður á um það bil 40.-45. gráðu norður, hnattstöðu sem er sunnar en Bretland og á svipaðri breiddargráðu og New York.
Ilulissat-ísfjörðurinn var tilnefndur á Heimsminjaskrá UNESCO árið 2004.
Saga
breytaDiskó-flói hefur verið ein helsta veiðistöð á Grænlandi frá því að menn fóru að flytjast þangað. Fornleifafræðingar hafa fundið verksummerki um að búið hafi verið á þessu svæði í um það bil 4400 ár, en ekki þó óslitið, hér var mannlaust öldum saman á hluta þess tíma. Mikið af minjum frá hinum ýmsu tímum búsetu Inuíta og forvera þeirra hafa fundist hér. Þeir Inúítar sem eru forfeður nútíma Grænlendinga settust hér að í byrjun 13. aldar. Þó engin verksummerki hafi enn fundist er enginn efi á að á miðöldum komu hinir norrænu Grænlendingar hér við á veiðiferðum sínum enda er Ilulissat á miðju því svæði sem þeir nefndu Norðursetu. Sennilega er Bjarney sem nefnd er í fornum heimildum einmitt verið Diskó-eyja.
Dýralif
breytaDiskó-flói er heimkynni margs konar dýrategunda vegna næringarríks sjávar. Þar á meðal eru botn- og uppsjávarfiskar eins og loðna (Mallotus villosus) og þorskur (Gadus morhua). Þetta laðar að sér seli eins og vöðusel (Pagophilus groenlandicus) og blöðrusel (Cystophora cristata) og hringanóra (Pusa hispida) og kampsel (Erignathus barbatus).
Flóinn er heimkynni á vorin fyrir norðhval (Balaena mysticetus) og hnúfubak (Megaptera novaeangliae),auk grindhvala (Globicephala melas), háhyrninga (Orcinus orca) og náhvala (Monodon monoceros). A fjörum er að finna ýmsa fugla eins og máva, æðarfugla, skarfa og skúm. Heimskautarefi, héra og rjúpur má finna í kringum flóann.[2]