Höskuldsstaðir (Laxárdal)

Höskuldsstaðir eru bær í Laxárdal í Dalasýslu. Bærinn stendur utarlega í dalnum, sunnan Laxár í Dölum. Þar bjuggu fyrst Dala-Kollur, landnámsmaður sem út kom með Auði djúpúðgu, og kona hans, Þorgerður Þorsteinsdóttir, en hún var sonardóttir Auðar. Sonur Dalakolls og Þorgerðar var Höskuldur og varð bærinn við hann kenndur og ber hans nafn æ síðan. Höskuldur keypti Melkorku á markaði erlendis og átti með henni soninn Ólaf. Melkorka þóttist vera mállaus en svo fór að Höskuldur kom að þar sem hún sat með Ólaf son sinn niður við Laxá fyrir neðan Höskuldsstaði og heyrði þau tala saman. Þá fékk hann fyrst að vita að hún væri írsk konungsdóttir.