Döbb (e. dub) er tónlistarstefna sem hófst á Jamaíku í lok sjöunda áratugarins. Döbb er undirstefna reggítónlistar sem varð til þegar plötusnúðar á Jamaíku tóku upptökur af reggílögum og hljóðblönduðu þær eða „döbbuðu“ á ákveðinn hátt. Áherslunum á hljóðfærum var breytt og ýmsum hljóðeffektum bætt við. Döbbið varð fljótt vinsælt á Jamaíku og víðar og kom það stundum fyrir að döbbútgáfa af einhverju reggílagi varð vinsælli en upprunalega útgáfan.

Aðal brautryðendur döbbsins voru Osbourne Ruddock, betur þekktur sem King Tubby, Lee „Scratch“ Perry og Errol Thompson. Þessi menn áttu stærstan þátt í að þróa döbbið og gera það vinsælt í upphafi áttunda áratugarins.

Vinsældir döbbtónlistar hafa dvínað með árunum en döbbið lifir áfram í gegnum þær gífurlega mörgu tónlistarstefnur sem það hefur haft áhrif á. Þar má helst nefna pönk, hipp hopp, diskó og síðar hústónlist, techno, ambient, trip hop, jungle, drum and bass og dubstep.

Einkenni stefnunnar

breyta

Ferlið að döbba er þegar áðurupptekin eða tilbúin tónlist er tekin upp aftur með ýmsum breytingum á laginu. Hið dæmigerða döbblag verður til þegar eitthvert reggílag er tekið og hljóðblandað eða „döbbað“ á ákveðinn hátt. Það sem á sér stað þegar eitthvert lag er döbbað er að mikil áhersla er lögð á bassann og trommuna í laginu og er djúp bassalína oftast lifandi í gegnum mest allt lagið. Algengt er að söngurinn og aðalhljóðfærin í laginu séu tekin út en skeytt inn við og við síðar í laginu og jafnvel með einhvers konar effektum og er þá söngurinn oftar en ekki í formi bergmáls.

Einstaka döbblög eiga það til að innihalda frumlega effekta á borð við dýrahljóð, barnsgrátur og jafn vel framleiðendur að öskra leiðbeiningum til tónlistarmannanna. Oft er talað um að döbbtónlist teikni einhvers konar hljóðmynd fyrir hlustandann vegna þess hversu náttúrulegt hljóðið er í tónlistinni, þrátt fyrir að megnið af henni sé rafmagnað.

Upptökur á döbbtónlist á sjöunda áratugnum voru jafnan gerðar beint inn á plöturnar. Það gerði það að verkum að það var undir hljóðmanninum á bak við mixborðið komið hvort að upptakan heppnaðist vel eða ekki. Ef að hljóðmaðurinn var flinkur á mixborðið varð til góð döbbtónlist, annars ekki.

Upphafið

breyta

Líkt og reggí á döbbið á rætur sínar að rekja til tónlistastefnanna ska og rocksteady, en þær voru vinsælar í lok sjöunda áratugarins. Upphaf döbbsins sjálfs má síðan rekja til atviks sem átti sér staði í Kingston, höfuðborg Jamaíku, árið 1968. Þá var Ruddy Redwood skemmtanastjóri staddur á upptökuverinu Treasure Isle hjá Duke Reid, sem var á þeim tíma einn af aðalskemmtanastjórum og framleiðendum á Jamaíku. Redwood var kominn á verið til að endurblanda plötu fyrir fjöldaskemmtun sem hann var að fara að spila á um kvöldið. Hljóðverkfræðingurinn Byron Smith, sem vann á verinu, gerði þau mistök að sleppa söngnum í upptökunni sem Redwood kom með. Þegar Redwood heyrði síðan upptökuna án söngs ákvað að prófa að halda henni þannig til þess að spila hana um kvöldið. Þegar hann síðan spilaði útgáfuna af laginu með engum söng um kvöldið voru viðbrögð fólksins á klúbbnum það góð að þau fóru að syngja textann af upprunalegu útgáfunnu yfir sönglausu útgáfuna.

Fólkinu líkaði lagið svo vel að Redwood endaði með því að spila þessa útgáfu af laginu, sem var ekki langt, í um klukkustund. Byron Lee, starfsmaður á Treasure Isle, hafði orðið vitni af þessum atburði og fór strax daginn eftir og sagði King Tubby frá. Hann sagði að Tubby yrði að fara að blanda lög án söngs því að fólkið virtist elska það. King Tubby var rafmagnsverkfræðingur sem hafði unnið við að gera við sjónvörp og útvörp á sjöunda áratugnum sem og að vinna við hin ýmsu hljóðmannsstörf á Tresure Isle. Um 1968 var hann búin að koma sér upp fullkomnu hljókerfi sem hann kallaði Home Town Hi-Fi og um leið og hann heyrði fréttirnar af vinsældum tónlistar án söngs fór hann að fikta við að blanda slíka tónlist því að hann hafði góða aðstöðu til þess með hljóðkerfinu sínu.

Frá undirstefnu að sér stefnu

breyta

Árið 1972 kom King Tubby sér upp litlu upptökuveri í Waterhouse-hverfinu í Kingston þar sem hann byrjaði að taka upp tónlist með tónlistarmönnum á borð við Bunny Lee og Lee Scratch Perry. Það sem gaf Tubby forskot í þessari nýju tegund tónlistar var að hann bjó sér til heimagerðan mixer sem var mun tæknivæddari er þeir mixerar sem þeir sem voru í samkeppni við hann notuðu. Í gegnum heimatilbúna mixerinn gat hann til dæmis spilað margs konar effekta sem áttu síðar eftir að einkenna döbbtónlist.

Í upptökum á fyrstu plötunni sem Tubby gaf út notaði hann mixerinn eins og hljóðfæri og „spilaði“ á hann beint inn á upptökuna. Árið 1973 gaf King Tubby ásamt Lee Scratch Perry út fyrstu döbbplötuna sem hét „Blackboard Jungle“. Fljótlega eftir að tónlistarstefnan var orðið vinsæl í upphafi áttunda áratugarins myndaðist hefð fyrir því að döbbútgáfa af reggílögum væri á B-hliðinni á 45-rpm plötum sem innihéldu aðeins eitt lag á hvorri hlið smáskífunnar. Þá kom það stundum fyrir að B-hliðin varð vinsælli en A-hliðin. Þróun stefnunnar var mikil þegar líða fór á áttunda áratuginn og fljótlega upp úr 1975 verður þessi undirstefna reggítónlistar hægt og rólega að sjálfsæðari tónlistarstefnu þökk sé King Tubby og félögum.

Vinsældir á Bretlandi

breyta

Með hinum tæknivædda áttunda áratug færðust vinsældir döbbsins til Bretlandseyja og víðar um Evrópu. Við tóku breskir tónlistarmenn sem að mynduðu nýja kynslóð af döbbi sem stundum er nefnd digidöbb. Það sem tækni níunda áratugarins hafði í för með sér voru ýmsar nýjungar í gerð á döbbtónlist. Tónlistarmennirnir gátu nú búið til sína eigin og upprunalegu döbbtónlist óháð öðrum upptökum. Það er að segja að hljómsveitir voru orðinn óþarfa hlekkur í gerð tónlistarinnar. Það voru síðan tónlistarmenn á borð við Adrian Sherwood og Mad Professor sem gerðu döbbtónlist virkilega vinsæla í Bretlandi um miðjan níunda áratuginn og lögðu grunninn að tónlistarsefnunum dubstep og jungle sem áttu eftir að taka við af döbbinu í upphafi tíunda áratugarins.

Heimildir

breyta
  • „History of Dub“. Sótt 1. maí 2012.
  • „History of Dub“. Sótt 1. maí 2012.
  • „Dub Music“. Sótt 1. maí 2012.
  • „A Brief History of Dub“. Sótt 1. maí 2012.
  • „Dub Voyage“. Sótt 1. maí 2012.
  • „History of Dub Music“. Sótt 1. maí 2012.