Crymogea var bókaútgáfa sem stofnuð var árið 2007 af Snæbirni Arngrímssyni og Kristjáni B. Jónassyni, sem jafnframt var útgáfustjóri. Crymogea var til húsa á Barónsstíg 27 og gaf út bækur um ljósmyndun, myndlist og hönnun. Crymogea hætti störfum 2021.

Crymogea gaf út bækur eftir ljósmyndara svo sem Ragnar Axelsson, Pál Stefánsson og Vigfús Birgisson, og einnig bækur með verkum myndlistarmanna á borð við Eggert Pétursson, Guðrúnu Einarsdóttur og Kristinn E. Hrafnsson. Forlagið gaf út ritröð um íslenska samtíðarlistamenn i samstarfi við Listasjóð Dungal.

Nafn útgáfunnar er fengið frá höfuðriti Arngríms Jónssonar lærða (1568-1648), Crymogaea sive rerum Islandicarum libri III, sem fyrst kom út í Hamborg árið 1609, og er hann verndari útgáfunnar.

Í apríl 2011 óskaði bókaútgáfan eftir því að listaverkið Fallegasta bók í heimi yrði fjarlægt af sýningunni KODDU í Nýlistasafninu. Listaverkið byggir á bókinni Flora Islandica, sem bókaútgáfan hafði gefið út og þótti henni listaverkið brjóta á sæmdarrétti höfunda bókarinnar. Nýlistasafnið varð við ósk forlagsins og fjarlægði verkið úr sýningarsal sýnum. Verkið var þá flutt á þann hluta sýningarinnar sem var í Alliance-húsinu, en ekki var orðið við þeirri kröfu að því yrði eytt.