Corpus Codicum Islandicorum Medii Aevi

Corpus Codicum Islandicorum Medii Aevi (íslenska: Safn íslenskra skinnbóka frá miðöldum, skammstafað CCI) er ritröð sem forlagið Levin og Munksgaard í Kaupmannahöfn gaf út á árunum 1930–1956.

Frumkvæðið að útgáfunni átti hinn stórhuga útgefandi Ejnar Munksgaard í Kaupmannahöfn. Engin opinber stofnun hafði treyst sér í slíkt verkefni, en Munksgaard sá möguleika í stöðunni vegna þess hve víðtæka skírskotun íslensku fornritin höfðu. Hann réðst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur, heldur byrjaði á stærsta og veglegasta handritinu, Flateyjarbók. Útgáfan gekk hratt fyrir sig í byrjun, en nokkuð hægðist á eftir síðari heimsstyrjöld. Síðustu þrjú bindin komu út eftir að Ejnar Munksgaard dó (1948), og með 20. bindi (1956) taldist ritröðinni lokið. Þá var hafin útgáfa á annarri ritröð með ljósprentuðum íslenskum handritum á vegum Munksgaards-forlagsins, Manuscripta Islandica.

Einar Munksgaard var sjálfur ritstjóri úgtáfunnar á meðan hans naut við, en eftir að hann dó, 1948, tók Jón Helgason við ritstjórn og sá um 18., 19. og 20. bindi. Íslenskir fræðimenn unnu mikið að útgáfu CCI, sem mikið var lagt í. Bækurnar voru stórar, bundnar í hvítt pergament og skjaldarmerki Íslands á fremra spjaldi, fyrst skjaldarmerki konungsríkisins, síðan lýðveldisins.

Útgáfan á CCI var gríðarleg auglýsing fyrir íslenskar fornbókmenntir, enda var höfðinglega að henni staðið. Reyndar hefur verið fundið að því að bækurnar hafi verið óþarflega stórar og þungar, því að þær voru prentaðar á mjög þykkan pappír. Einnig voru sumir formálarnir nokkuð almenns eðlis og fjölluðu fremur lauslega um viðkomandi handrit, en athygli alveg eins beint að efni þeirra rita sem handritið hafði að geyma. Engu að síður var útgáfunni tekið fagnandi af áhugamönnum um norræn fræði og voru bækurnar seldar til safna og einstaklinga út um allan heim.

Listi yfir ritin breyta

  1. Flateyjarbók (Codex Flateyensis). MS no. 1005 fol. in the Old Royal Collection in the Royal Library of Copenhagen. — Finnur Jónsson gaf út, 1930.
  2. Codex Wormianus (The younger Edda) : MS. no. 242 fol. in the Arnamagnean Collection in the University Library of Copenhagen. — Sigurður Nordal gaf út, 1931.
  3. The Codex regius of Grágás : MS. no. 1157 fol. in the Old Royal Collection of the Royal Library, Copenhagen. — Páll Eggert Ólason gaf út, 1932.
  4. Codex Frisianus : (Sagas of the kings of Norway) : MS. no. 45 fol. in the Arnamagnæan Collection in the University Library of Copenhagen. — Halldór Hermannsson gaf út, 1932.
  5. Möðruvallabók : (Codex Mödruvallensis) MS. no. 132. fol. in the Arnamagaean Collection in the University Library of Copenhagen. — Einar Ól. Sveinsson gaf út, 1933.
  6. Morkinskinna : MS. no. 1009 fol. in the Old Royal Collection of the Royal Library, Copenhagen. — Jón Helgason gaf út, 1934.
  7. Icelandic illuminated manuscripts of the middle ages. — Halldór Hermannsson gaf út, 1935.
  8. Homiliu-bók (Icelandic sermons) : Perg. 4to no. 15 in the Royal Library, Stockholm. — Fredrik Paasche gaf út, 1935.
  9. Staðarhólsbók : the ancient lawbooks Grágás and Járnsíða : MS. no. 334 fol. in the Arna-Magnaean Collection in the University Library of Copenhagen. — Ólafur Lárusson gaf út, 1936.
  10. Codex Regius of the Elder Edda : MS. no. 2365 4to in the Old Royal Collection in the Royal Library of Copenhagen. — Andreas Heusler gaf út, 1937.
  11. Early Icelandic rímur : MS no. 604 4to of the Arna-Magnæan Collection in the University Library of Copenhagen. — Sir William A. Craigie ritaði formála, 1938.
  12. A book of miracles : MS. no. 645 4to of the Arna-Magnæan Collection in the University Library of Copenhagen. — Anne Holtsmark gaf út, 1938.
  13. The Arna-Magnæan Manuscript 557 4to : containing inter alia the history of the first discovery of America. — Dag Strömbäck gaf út, 1940.
  14. Codex Regius of the Younger Edda : MS. no. 2367 4to in the Old Royal Collection in the Royal Library of Copenhagen. — Elias Wessén gaf út, 1940.
  15. Óláfs saga ens helga : MS. Perg. 4to no. 2 in the Royal Library of Stockholm. — Jón Helgason gaf út, 1942.
  16. Skarðsbók, Jónsbók and other laws and precepts : MS. no. 350 fol. in the Arna-Magnæan Collection in the University Library of Copenhagen. — Jakob Benediktsson gaf út, 1943.
  17. Fragments of the Elder and the Younger Edda : AM 748 I and II 4:0. — Elias Wessén gaf út, 1945.
  18. The Arna-Magnaean Manuscript 677 4to : Pseudo-Cyprian fragments, Propser’s epigrams, Gregory’s Homilies and dialogues. — Didrik Arup Seip gaf út, 1949.
  19. Byskupa sögur : MS. Perg. fol. no. 5 in the Royal Library of Stockholm. — Jón Helgason gaf út, 1950.
  20. Stjórn : AM 227 fol. : A Norwegian version of the Old Testament transcribed in Iceland. — Didrik Arup Seip gaf út, 1956.

Tengt efni breyta

Heimildir breyta

  • Skrár Landsbókasafns.