Christine Jorgensen
Christine Jorgensen (30. maí 1926 – 3. maí 1989) var bandarísk trans kona. Hún var fyrsta manneskjan í Bandaríkjunum sem varð þekkt fyrir að hafa gengið í gegn um kynleiðréttingaraðgerð. Jorgensen ólst upp í New York borg og var kvödd til herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir að herþjónustu hennar var lokið ferðaðist hún til Kaupmannahafnar, þar sem hún gekkst undir röð aðgerða frá og með árinu 1951.[1]
Christine Jorgensen | |
---|---|
Fædd | 30. maí 1926 |
Dáin | 3. maí 1989 (62 ára) |
Þjóðerni | Bandarísk |
Störf | Leikkona, söngkona |
Christine sneri aftur til Bandaríkjanna og rataði kynleiðrétting hennar á forsíðu dagblaðsins The New York Daily News. Hún nýtti skyndilega frægð sína til að berjast fyrir réttindum trans fólks, auk þess að vinna sem leikkona og skemmtikraftur.
Uppeldi og menntun
breytaJorgensen ólst upp í Bronx hverfi New York borgar. Hún var annað barn trésmiðsins George William Jorgensen, Sr., og Florence Davis Hansen, eiginkonu hans. Í viðtölum lýsti Jorgensen æsku sinni svo að hún hafi verið "veikburða, ljóshærður, ómannblendinn lítill strákur sem hljóp frá slagsmálum og áflogum."[2]
Jorgensen útskrifaðist frá Christopher Columbus High School árið 1945 og var kvödd til herþjónustu í Bandaríkjaher þegar hún var 19 ára. Eftir að hún lauk herþjónustu sinni gekk Jorgensen í Mohawk Valley Community Collage í Utica, New York, the Progressive School of Photography í New Haven, Connecticut og í Manhattan Medical and Dental Assistant School í New York.
Kynleiðréttingaraðgerðir
breytaEftir herþjónustu sneri Jorgensen aftur til New York borgar, þar sem hún fór í auknum mæli að velta fyrir sér kyni sínu. Hún leitaði aðstoðar lækna og byrjaði sjálf að taka inn estrógen. Þar sem hún gat ekki fengið þá læknishjálp sem hún þurfti í Bandaríkjunum lagði hún leið sína til Svíþjóðar, þar sem hún taldi sig geta fengið þá hjálp. Hún kom við í Danmörku þar sem hún dvaldi um stund hjá ættingjum. Þar komst hún í samband við Christian Hamburger, lækni sem stundaði þar hormónarannsóknir. Christian féllst á að veita henni meðferð án endurgjalds og valdi Jorgensen sitt nýja nafn, Christine, til heiðurs honum.[3]
Jorgensen fékk sérstakt leyfi frá danska dómsmálaráðherranum til að gangast undir aðgerðir í landinu. Árið 1951 gekkst hún undir eistanám við Gentofte sjúkrahúsið í Kaupmannahöfn og 1952 undir limnám við Rigshospitalet.[3]
Þegar leggangalögun varð aðgengileg í Bandaríkjunum gekkst Jorgensen einnig undir þá aðgerð. Var sú aðgerð framkvæmd af Joseph Angelo, sem hafði ráðlagt henni að leita til Evrópu þegar hún sóttist fyrst eftir kynleiðréttingu.
Heimildir
breyta- ↑ „11 Remarkable Transgender People from History“. HistoryCollection.co (bandarísk enska). 8. október 2017. Sótt 11. mars 2020.
- ↑ Jorgensen, Christine (1968). Christine Jorgensen; a personal autobiography. Internet Archive. New York, Bantam Books.
- ↑ 3,0 3,1 „Jorgensen, Christine (30 May 1926-3 May 1989), who achieved fame by undergoing a surgical sex change, was born George William Jorgensen, Jr“. web.archive.org. 22. febrúar 2009. Afritað af uppruna á 22. febrúar 2009. Sótt 11. mars 2020.