Jiang Qing
Jiang Qing (19. mars 1914 – 14. maí 1991), einnig kölluð frú Maó,[1] var kínversk kommúnísk byltingarkona, leikkona og stjórnmálakona sem naut mikilla áhrifa á tíma menningarbyltingarinnar (1966–76). Hún var fjórða eiginkona Maó Zedong, formanns kínverska kommúnistaflokksins og æðsta leiðtoga Alþýðulýðveldisins Kína. Hún notaði sviðsnafnið Lan Ping á leikaraárum sínum og var þekkt undir ýmsum öðrum nöfnum. Hún giftist Maó árið 1938 og varð „forsetafrú“ Kína við stofnun Alþýðulýðveldisins. Jiang Qing lék lykilhlutverk í Menningarbyltingunni og myndaði ásamt Wang Hongwen, Zhang Chunqiao og Yao Wenyuan róttækt stjórnmálabandalag sem kallað var „fjórmenningaklíkan“.[2][3]
Jiang Qing 江青 | |
---|---|
Fædd | 19. mars 1914 |
Dáin | 14. maí 1991 (77 ára) |
Dánarorsök | Sjálfsmorð |
Störf | Leikkona, stjórnmálakona |
Maki | Pei Minglun (g. 1931) Tang Na (g. 1936) Maó Zedong (g. 1938; d. 1976) |
Jiang Qing var einkaritari eiginmanns síns á fimmta áratugnum og starfaði sem formaður kvikmyndadeildar áróðursráðuneytis kommúnistaflokksins á sjötta áratugnum. Hún var nokkurs konar sendifulltrúi Maós í byrjun menningarbyltingarinnar. Árið 1966 var hún útnefnd aðstoðarframkvæmdastjóri stjórnarnefndar Menningarbyltingarinnar. Hún vann ásamt Lin Biao við að boða túlkun Maós á kommúnískri hugmyndafræði og við að ýta undir leiðtogadýrkun á Maó. Á hápunkti menningarbyltingarinnar naut Jiang Qing mikilla valda í ríkisstjórn landsins, sérstaklega í menningar- og listastefnu. Í áróðri var hún lofsömuð sem „hinn mikli fánaberi alþýðubyltingarinnar“. Árið 1969 tók Jiang Qing sæti í miðstjórn kínverska kommúnistaflokksins.
Áður en Maó dó stjórnaði fjórmenningaklíkan mörgum ríkisstofnunum Kína, þar á meðal áróðursráðuneytinu og öðrum ríkisfjölmiðlum. Jiang Qing, sem naut valda sinna aðallega í ljósi tengsla sinna við Maó, var hins vegar oft á öndverðum meiði við aðra helstu leiðtoga Kína. Hún glataði miklum völdum þegar Maó dó árið 1976. Í október 1976 var hún handtekin að undirlagi Hua Guofengs og bandamanna hans og síðan fordæmd af stjórnarmönnum flokksins. Upp frá því hafa kínversk stjórnvöld opinberlega stimplað Jiang Qing sem meðlim í „Lin Biao og Jiang Qing-gagnbyltingarklíkunni“[4] og hafa kennt henni um hörmungar menningarbyltingarinnar. Hún var dæmd til dauða en dómurinn var mildaður í ævilangt fangelsi árið 1983. Jiang Qing var sleppt svo hún gæti hlotið læknismeðferð árið 1991 en hún framdi sjálfsmorð stuttu síðar.[5]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Frú Maó: Voldugasta kona í heimi“. Vikan. 19. ágúst 1971. Sótt 15. október 2018.
- ↑ „Menningarbyltingin og fjórmenningaklíkan“. mbl.is. 30. mars 2001. Sótt 15. október 2018.
- ↑ „Hvað fólst í menningarbyltingunni í Kína?“. Vísindavefurinn.
- ↑ A Great Trial in Chinese History — the Trial of the Lin Biao and Jiang Qing Counter-Revolutionary Cliques, Beijing/Oxford: New World Press/Pergamon Press, 1981, bls. title
- ↑ Stefan R. Landsberger (2008). Madame Mao: Sharing Power with the Chairman.