Sérókar

(Endurbeint frá Cherokee)

Sérókar (enska: Cherokee) eru ein af frumbyggjaþjóðum Norður-Ameríku sem byggðu austur- og suðausturhluta Bandaríkjanna þar til þeir voru neyddir til að flytjast á slétturnar við Ozark-fjöll á 19. öld. Fyrir þann tíma bjuggu Sérókarnir aðallega í suðvesturhluta Norður-Karólínu, suðausturhluta Tennessee, vesturhluta Suður-Karólínu og norðausturhluta Georgíu. Í dag viðurkennir stjórn Bandaríkjanna þrjá ættbálka Séróka: Austurflokk Sérókaindíána í Norður-Karólínu, hinn Sameinaða Keetowah-flokk Sérókaindíána í Oklahoma og Sérókaþjóðina í Oklahoma.

Myndir af nokkrum sérókum.

Á 19. öld töldu evrópskir landnemar í Bandaríkjunum Sérókana í suðvesturhluta landsins meðal „hinna fimm siðmenntuðu ættbálka“ amerískra frumbyggja. Ástæðan var að Sérókarnir voru landbúnaðarþjóð og bjuggu í þorpum þar sem þeir höfðu tileinkað sér suma siði og tæknibúnað landnemanna. Sérókarnir voru meðal fyrstu þjóðflokkanna fyrir utan Evrópumenn sem urðu bandarískir ríkisborgarar. Í sáttmála sem Bandaríkjastjórn gerði við séróka árið 1817 var tekið fram að Sérókar mættu sækja um ríkisborgararétt.

Sérókaþjóðin telur til sín um 360.000 manns og er næststærsti viðurkenndi frumbyggjaættbálkurinn í Bandaríkjunum á eftir Navahóum. Í bandarískum manntölum eru um 819.000 manns sem segjast rekja ættir sínar til séróka.

Tungumál Séróka er hluti af tungumálafjölskyldu Írókesa. Samkvæmt munnmælasögum séróka fluttist þjóðflokkurinn suður á bóginn frá svæðinu í kringum vötnin miklu á fornöld.[1] Samkvæmt öðrum munnmælaheimildum komu Sérókar frá suðausturhluta Bandaríkjanna en engar fornleifarannsóknir styðja þá kenningu.

Frá 1736 til 1743 bjó Þjóðverjinn Christian Gottlieb Priber með sérókum og reyndi sem „forsætisráðherra“ þeirra að skipuleggja andspyrnu innfæddra gegn enskum landnemum.

Á tíma bandaríska frelsisstríðsins leiddu ítrekuð samningsbrot evrópsku landnemanna gagnvart Sérókum til þess að sumir þeirra sögðu sig úr þjóðabandalagi Séróka. Þessir andófsmenn voru kallaðir Chickamauga-Sérókar og lutu stjórn höfðingjans Dragging Canoe. Þeir gengu í lið með Shawnee-indíánum og gerðu árásir á landnemabyggðir með stuðningi Breta.

19. öld

breyta

Ein mikilvægasta persóna í sögu Séróka var John Ross, öðru nafni Koowescoowe. Faðir hans var Skoti sem hafði flust til Bandaríkjanna fyrir frelsisstríðið. Móðir hans, sem einnig var dóttir skosks innflytjanda, var komin af Sérókum í aðra ætt móður sinnar. John Ross hóf embættisferil sinn árið 1809 og tók þátt í opinberri stofnun Sérókaþjóðarinnar samkvæmt bandarískum alríkislögum árið 1820. John Ross var útnefndur höfðingi Sérókaþjóðarinnar árið 1828 og gegndi þeirri stöðu til dauðadags árið 1866.

Á fjórða áratugi 19. aldar voru Sérókar neyddir til þess að flytjast frá heimalandi forfeðra sinna í Georgíu og Norður- og Suður-Karólínu til verndarsvæða í Oklahoma, aðallega vegna þess að gull hafði fundist nærri Dahlonega, sem var innan yfirráðasvæðis Séróka. Stærstu nauðungarflutningarnir á sérókum fóru fram árið 1839 og voru kallaðir táraslóðin (enska: Trail of Tears). Í flutningunum voru um 16.543 Sérókar hraktir frá heimkynnum sínum í Georgíu, Suður-Karólínu, Norður-Karólínu, Tennessee, Texas og Alabama og neyddir til að fara fótgangandi til verndarlanda í Oklahoma. Um 2.000–8.000 af Sérókunum létust á leiðinni.[2][3][4][5][6] Bandaríkjastjórn réttlætti nauðungarflutningana með samningi sem stjórn Andrews Jackson hafði gert við fulltrúa Séróka í New Echota árið 1835, en í þeim samningi féllust fulltrúar Sérókanna formlega á að láta af hendi landsvæði í suðvesturhluta álfunnar og flytjast á verndarsvæðin. Umboð þessara fulltrúa til að semja í nafni allra Séróka var þó mjög vafasamt og hvorki John Ross né aðrir opinberir leiðtogar hinnar lagalega viðurkenndu Sérókaþjóðar áttu neina aðild að samningaviðræðunum.

Þegar Sérókarnir komu á verndarsvæðið varð mikil spenna milli þeirra og farið var að hunsa lög sem skilgreindu lagalega stöðu Séróka. Margir af þeim sem höfðu skrifað undir samninginn í New Echota voru myrtir og þessar deilur urðu kveikjan að 15 ára borgarastyrjöld meðal Séróka.[7] Einn þeirra sem lifði þann ófrið af var Stand Watie, sem varð hershöfðingi í her Suðurríkjasambandsins þegar þrælastríðið braust út.

 
Gamlir Sérókar sem börðust með Suðurríkjasambandinu í þrælastríðinu hittast í New Orleans árið 1902.

John Ross beitti sér fyrir því að Sérókar viðhéldu hlutleysi í þrælastríðinu en höfðingjar Séróka samþykktu engu að síður að aðstoða Suðurríkjasambandið þann 7. október árið 1861. Fátt annað var í stöðunni fyrir þjóðflokkinn þar sem her norðurríkjanna hafði hörfað frá landsvæðum frumbyggjanna og flestar aðrir frumbyggjaþjóðir höfðu þá gengið til liðs við suðurríkin. Auk þess hafði Stand Watie þá þegar myndað eigin hersveit til að aðstoða Suðurríkin. Fylgismenn Ross mynduðu því eigin hersveit undir stjórn herforingjans Johns Drews, en ekki var hægt að láta þá hersveit berjast við hlið hersveitar Stand Watie vegna óvildarinnar milli þessara fylkinga innan sérókaþjóðarinnar.[7]

Fyrir þrælastríðið höfðu Sérókar, líkt og fleiri frumbyggjaþjóðir í suðurhluta Bandaríkjanna, átt þræla. Þrælar þeirra voru frelsaðir í lok stríðsins, en margir þeirra bjuggu áfram með þjóðflokkunum sem þeir höfðu tilheyrt og sumir þeirra giftust frumbyggjum eftir að hafa hlotið frelsi sitt.

20. og 21. öld

breyta

Í Oklahoma voru Sérókar sviptir rétti til að kjósa eigin höfðingja árið 1907, þegar Oklahoma var viðurkennt sem fylki. Þaðan af útnefndu forsetar Bandaríkjanna stjórnendur Sérókaþjóðarinnar allt fram til ársins 1970, en þá fengu Sérókar aftur rétt til að kjósa eigin ríkisstjórn með þingsályktun sem Richard Nixon Bandaríkjaforseti skrifaði undir. Fyrsti höfðinginn sem Sérókar í Oklahoma-fylki kusu sér var W. W. Keeler, sem var jafnframt formaður olíufélagsins Phillips Petroleum. Eftirmenn hans sem höfðingjar Sérókaþjóðarinnar hafa verið Ross Swimmer, Wilma Mankiller, Joe Byrd, Chad Smith og núverandi höfðinginn Bill John Baker.

Þann 14. júní árið 2004 kaus stjórn Sérókaþjóðarinnar að skilgreina hjónaband opinberlega sem samband milli karls og konu og útilokuðu þannig lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra. Chad Smith höfðingi sagði að þessi ákvörðun hefði fyrst og fremst verið tekin til að samræma lög Sérókaþjóðarinnar og þáverandi lög Oklahoma-fylkis.

Í mars árið 2007 kusu Sérókar með 77 prósenta meirihluta að útiloka afkomendur svartra þræla sem meðlimi Sérókaþjóðarinnar.[8] Héraðsdómstóll séróka ógilti þessa ákvörðun árið 2011.[9]

Tilvísanir

breyta
  1. James Mooney (1902). Myths of the Cherokee. Washington Government Printing Office.
  2. Thornton, Russell (1991). „The Demography of the Trail of Tears Period: A New Estimate of Cherokee Population Losses“. Í William L. Anderson (ritstjóri). Cherokee Removal: Before and After. bls. 75–93.
  3. Curtis, Nancy C. (1996). Black Heritage Sites. United States: ALA Editions. bls. 543.
  4. Prucha, Francis Paul (1. janúar 1995). The Great Father: The United States Government and the American Indians. U of Nebraska Press. bls. 241 note 58.
  5. Ehle, John (8. júní 2011). Trail of Tears: The Rise and Fall of the Cherokee Nation. Knopf Doubleday Publishing Group. bls. 390–392.
  6. Carter, Samuel (1976). Cherokee sunset: a nation betrayed : a narrative of travail and triumph, persecution and exile. Doubleday. bls. 232.
  7. 7,0 7,1 „Börðust indjánar í Þrælastríðinu?“. Vísindavefurinn.
  8. „Les Noirs exclus par les Cherokees“. liberation.fr. 5. mars 2007. Sótt 27. mars 2019.
  9. Gavin Off, "Judge grants Cherokee citizenship to non-Indian freedmen", Tulsa World, 14. janúar 2011.