Carlo Petrini (f. 22. júní 1949) er ítalskur blaðamaður og félagsfræðingur. Hann lærði félagsfræði við Háskólann í Trento og varð virkur í stjórnmálum í róttæka vinstriflokknum Einingarflokki öreiganna. Hann var kosinn í sveitarstjórn heimabæjar síns, Bra, á vegum þess flokks. Hann hóf að skrifa um mat og vín í dagblöð á borð við Il manifesto og l'Unità. Hann stofnaði Gambero Rosso sem upphaflega var aukablað með Il manifesto en varð síðar forlag sem sérhæfir sig í ritum um mat. Um miðjan 9. áratug 20. aldar stofnaði hann samtökin „Libera e Benemerita Associazione degli Amici del Barolo“ („hin frjálsu og lofsverðu samtök vina Barolo-vínsins“) sem í júlí 1986 breyttust í Arci Gola, undanfara Slow Food-samtakanna. Arci Gola börðust gegn opnun MacDonald's-staðar við Spænsku tröppurnar í Róm. Síðar átti hann þátt í stofnun matvælasýningarinnar Salone internazionale del gusto í Tórínó.

Carlo Petrini.

Petrini hefur ritað fjölda bóka um mat og vín og hefur verið ritstjóri yfirlitsrita um vínframleiðslu á Ítalíu og í heiminum öllum. Auk þess að berjast gegn skyndibitamenningu hefur hann barist gegn erfðabreyttum matvælum. Hann stofnaði háskóla í matargerðarlist, Università degli Studi di scienze gastronomiche, í Pollenzo í nágrenni Bra.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.