Baráttan um arfinn

bók um Sval og Val frá árinu 1952

Baráttan um arfinn (franska: Spirou et les héritiers) er fjórða bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1951-52 og kom út á bókarformi árið 1952. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Franquin. Hún var gefin út á íslensku árið 1980 og telst níunda í röðinni í íslenska bókaflokknum.

Söguþráður breyta

Í upphafi sögunnar fær Valur þær fregnir að hann þurfi að etja kappi við Samma frænda sinn um arf eftir lítt kunnan ættingja. Keppnin felst í þremur þrautum. Sú fyrsta gengur út á að finna upp frumlegt og nytsamlegt tæki. Þar sigrar Valur með því að búa til hentugt farartæki, sem er eins konar bakpoki með þyrluspaða.

Önnur þrautin gengur út á að komast í eitt af efstu sætunum í kappaksturskeppni, en þar sigrar Sammi frændi með bellibrögðum.

Lokaþrautin felst í að finna hina goðsagnakenndu veru, gormdýrið, í skógum Palombíu. Svalur og Valur finna gormdýrið og eru á leið með það til byggða þegar hópur indíána ræðst á þá. Á síðustu stundu kemmur Sammi þeim félögum til bjargar. Hann játar sig sigraðan, segist sjá á eftir misgjörðum sínum og ákveður að setjast að í Palombíu.

Þegar heim er komið fær Valur að vita að frændinn dularfulli skildi í raun ekki eftir sig nein verðmæti, en efndi til keppninnar í þeirri von að ónytjungarnir Valur og Sammi mættu komast til nokkurs þroska. Þrátt fyrir þessi málalok unir Valur glaður við sitt, en harmar þó að gormdýrið hafi verið svipt frelsi sínu og lokað inni í dýragarði.

Fróðleiksmolar breyta

  • Farartækið sem Valur útbýr í fyrsta hluta keppninnar átti eftir að skjóta aftur upp kollinum í allnokkrum Svals og Vals-bókum.
  • Þrjár bækur í Svals og Vals-bókaflokknum mega teljast beint eða óbeint framhald af Baráttunni um arfinn. Það eru: Les voleurs du Marsupilami, Niður með harðstjórann! og L'homme qui ne voulait pas mourir.
  • Smásagan Fælið ekki fuglinn er aukasaga í íslensku útgáfunni. Hún er tvær blaðsíður og lýsir átökum gormdýrsins og heimiliskattar sem ásælist fugla í garði Sveppagreifans.

Íslensk útgáfa breyta

Baráttan um arfinn – eða Svalur finnur Gorm var gefinn út af Iðunni árið 1980 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var níunda bókin í íslensku ritröðinni.