Bolli Gústavsson (17. nóvember 193527. mars 2008) var sóknarprestur í Hrísey og Laufási, og vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal frá 1991 til 2002.

Æviferill breyta

Bolli fæddist á Akureyri. Foreldrar hans voru hjónin Gústav Elís Berg Jónasson (1911–1990) rafvirkjameistari og Hlín Jónsdóttir (1911–1973) húsfreyja.

Bolli lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1963 og vígðist sama ár sóknarprestur í Hrísey. Hann var skipaður sóknarprestur í Laufási 1966 og gegndi því embætti til 1991, þegar hann varð vígslubiskup á Hólum. Árið 2002 lét hann af embætti vígslubiskups vegna heilsubrests.

Bolli var um tíma formaður Æskulýðssambands kirkjunnar í Hólastifti, og Prestafélags hins forna Hólastiftis. Hann var einnig formaður Hólanefndar 1991-2002. Þá var hann formaður úthlutunarnefndar listamannalauna um árabil.

Eftir að Bolli tók við embætti vígslubiskups beitti hann sér fyrir byggingu Auðunarstofu hinnar nýju á Hólum. Húsið nýtist sem fræði- og fundaraðstaða. Með hans milligöngu fékkst faglegur og fjárhagslegur stuðningur norskra aðila við verkið.

Kona Bolla var Matthildur Jónsdóttir (f. 1936) hárgreiðslumeistari. Þau eignuðust 6 börn.

Ritstörf breyta

Bolli var kunnur fyrir ritstörf, bæði fyrir blöð og tímarit, og tók saman dagskrár um skáld og skáldskap til útvarpsflutnings. Hann ritstýrði tímaritinu Heima er best um tveggja ára skeið.

Bolli gaf út eftirtaldar bækur:

  • Bolli Gústavsson: Fjögur skáld í för með presti. Bragi Sigurjónsson, Hjörtur Pálsson, Heiðrekur Guðmundsson, Kristján frá Djúpalæk. Skjaldborg, Akureyri 1978.
  • Bolli Gústavsson: Ýmsar verða ævirnar. Skjaldborg, Akureyri 1980. Æviþættir
  • Bolli Gústavsson: Vorganga í vindhæringi. Á mótum ljóðs og sögu. Almenna bókafélagið, Rvík 1982. Verðlaunabók á 25 ára afmæli AB.
  • Bolli Gústavsson: Litið út um ljóra - þættir. Skjaldborg, Akureyri 1985.
  • Bolli Gústavsson: Borðnautar - ljóð. Menningarsjóður, Rvík 1986. Hringur Jóhannesson myndskreytti.
  • Björn Halldórsson í Laufási: Ljóðmæli. Skálholt, Rvík 1994. Bolli Gústavsson annaðist útgáfuna og ritaði inngang: 'Upprisuskáld'.
  • Bolli Gústavsson: Lífið sækir fram. Skálholtsútgáfan, Rvík 2007. Predikanir og ljóð. Bókin var gefin út að frumkvæði fjölskyldu Bolla.

Bolli var góður teiknari og myndskreytti bækur, bæði eigin og annarra. Einnig hélt hann sýningar á teikningum sínum.

Heimildir breyta

  • Minningargreinar í Morgunblaðinu, 4. apríl 2008.