Bjarkeyjarréttur eða bæjarmannalög, er lagabálkur sem að fornu var notaður í kaupstöðum og öðrum verslunarstöðum í Noregi og víðar um Norðurlönd.

Merking

breyta

Ekki er að fullu vitað hvers vegna þessi forna verslunarlöggjöf heitir Bjarkeyjarréttur. Sumir fræðimenn hafa talið að til hafi verið orðið birk, í merkingunni verslunarstaður eða lögsagnarumdæmi, sbr. Bereich í þýsku. Yfirgnæfandi líkur eru þó á að merkingin sé lögin frá Bjarkey. Á fyrri hluta víkingaaldar var Bjarkey í Leginum (Mälaren), skammt frá Stokkhólmi, einn mikilvægasti verslunarstaður Norðurlanda. Þar var þéttbýli sem síðar hlaut nafnið Birka, e.t.v. eftir latnesku útgáfunni af Bjarkeyjar-nafninu, Birca.

Á Bjarkey var sérstakt þing, og þar hefur þróast löggjöf sem hentaði höfuðatvinnugrein staðarins, verslun og viðskiptum. Þessi bjarkeyjarréttur hefur síðan borist með kaupmönnum frá Bjarkey, og verið viðurkenndur og notaður þar sem þeir héldu kaupstefnur, og síðar víða þar sem fastir verslunarstaðir mynduðust.

Bjarkeyjarréttur í Noregi

breyta

Orðið bjarkeyjarréttur kemur fyrst fyrir í samningi Um rétt Noregskonungs á Íslandi og rétt Íslendinga í Noregi, frá dögum Ólafs helga (um 1020), og er þá notað um bæjarlögin í Niðarósi. Þó að bjarkeyjarrétturinn hafi í öndverðu verið samnorræn verslunarlöggjöf, þróaðist hún með tímanum með sérstökum hætti í hverjum kaupstað, með nýjum og breyttum reglum. Gamla nafnið hélst þó öldum saman sem lagalegt hugtak, þó að vitneskjan um uppruna þess og merkingu væri alveg gleymd.

Fjöldi staða (eyja) á Norðurlöndum ber nafnið Bjarkey, og rannsóknir hafa sýnt að flestir þeirra hafa eitthvað tengst verslun á miðöldum. Er talið að á víkingaöld hafi nafnið Bjarkey færst yfir á marga verslunarstaði, vegna þess að þar gilti bjarkeyjarréttur. E.t.v. hefur orðið Bjarkey smám saman fengið þá merkingu í huga manna.

Svæðisbundnu lögin í Noregi Gulaþingslög, Frostaþingslög o.s.frv., voru fyrst og fremst sniðin að bændasamfélaginu, þ.e. landbúnaðarlöggjöf. Því var talin þörf á sérstakri löggjöf fyrir verslunarstaði.

Magnús lagabætir lét endurskoða í heild löggjöf í Noregi. Voru þá samin ný bæjarlög sem voru nánast eins fyrir helstu kaupstaði í Noregi. Þau voru samþykkt í Björgvin 1276, og síðar eflaust í Niðarósi, Ósló og Túnsbergi. Þessi bæjarlög Magnúsar lagabætis eru kölluð bæjarlögin nýju, eða samkvæmt gamalli hefð: bjarkeyjarréttur hinn nýi.

Varðveisla

breyta

Af hinum forna bjarkeyjarrétti í Noregi eru einungis varðveitt brot og útdrættir úr bjarkeyjarréttinum í Niðarósi. Þar er m.a. kristinréttur, mannhelgibálkur og farmannalög. Margar lagagreinar eru þar sameiginlegar með Frostaþingslögum, enda var bjarkeyjarrétturinn yfirleitt eins konar viðauki við löggjöf viðkomandi svæðis. Einnig kemur fram (í grein 42) að bjarkeyjarréttur sé „á fisknesi hverju og í síldveri og í kaupförum“. Þetta má rekja til þess tíma þegar bjarkeyjarréttur var almenn löggjöf fyrir farmennsku og verslun. Norski bjarkeyjarrétturinn er sá elsti sem varðveittur er á Norðurlöndum.

Útgáfa: Norges gamle love inntil 1387 I, bls. 301–336. Nokkrir viðaukar eru í 4. bindi.

Bjarkeyjarréttur í Svíþjóð og Danmörku

breyta

Til er bjarkeyjarréttur (fornsænska: biærköarætter) sem hafði lagagildi í Stokkhólmi og víðar. Hann er í handriti frá um 1345, en gæti verið frá seinni hluta 13. aldar, frá dögum Birgis jarls.

Einnig er til bjarkeyjarréttur frá Skáni, í handriti frá seinni hluta 14. aldar. Hann gilti í Lundi og öðrum kaupstöðum þar, sem þá heyrðu undir Danmörku. Í Danmörku hafði orðið birk merkinguna afmarkað svæði, þar sem íbúarnir sóttu sérstakt þing, annað en héraðsþingið. „Birkerett“ var löggjöf sem gilti á þessu svæði, sem oftast var kaupstaður.

Heimild

breyta
  • Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder I, dálkar 655–661.

Tenglar

breyta