Björn Ólafsson Stephensen (4. júní 176917. júní 1835) var íslenskur dómsmálaritari (notarius) við Landsyfirrétt. Hann var af ætt Stefánunga og bjó lengst á Esjubergi á Kjalarnesi.

Björn var fæddur í Görðum á Álftanesi, sonur Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns og Sigríðar Magnúsdóttur konu hans og bróðir þeirra Magnúsar dómstjóra og Stefáns amtmanns. Hann var sagður ágætlega gefinn en ekki jafnmikill námsmaður og bræður hans og gerðu þeir að sögn stundum gys að honum fyrir heimsku og kölluðu hann naut, enda var hann stór vexti og sterkur, en hann mun ekki hafa tekið því illa, enda var hann gamansamur maður og orðheppinn. Er sagt að Stefán hafi í gamni ort þessa vísu um Björn bróður sinn:

Heimskan rík í heila flaut,
hér á landi bjó hann,
kálfur sigldi, kom út naut,
kusi lifði og dó hann. [1]

Björn giftist árið 1790 Margréti Jónsdóttur (f. 13. janúar 1773), dóttur Jóns Jakobssonar sýslumanns Eyfirðinga og systur Jóns Espólín. Jón átti góð samskipti við mág sinn og lýsir honum þannig: „Björn notarius var mikill vexti, sterkr ok glíminn, búsýslumaðr, nokkuð fégjarn, ærit frjáls ok ósnotr í háttum, tryggr maðr, en vanvirði nálega lærdóma alla.“[2] Hann segir jafnframt að Björn hafi verið rausnarmaður en stundum látið ósnoturlega og haft á sér fornmannaháttu.

Þau Björn og Margrét reistu bú á Hvítárvöllum og þar dó Margrét 22. október árið 1800, skömmu eftir fæðingu þriðja sonar þeirra. Björn flutti sig þá að Lágafelli í Mosfellssveit, enda var hann þá orðinn dómsmálaritari við Landsyfirrétt og þurfti að vera nær Reykjavík, og bjó þar til 1814, en þá flutti hann að Esjubergi og bjó þar til dauðadags. Hann giftist aftur árið 1803 og var seinni kona hans Sigríður Oddsdóttir (17. janúar 1787 – 27. júlí 1869), en faðir hennar var bróðir Ólafs föður Björns og þau því systkinabörn. Sonur þeirra var Oddgeir Stephensen, forstöðumaður íslensku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn um langt skeið.

Tilvísanir

breyta
  1. Saga Jóns Espólíns hins fróða, bls. V.
  2. Saga Jóns Espólíns hins fróða, bls. 25.

Heimildir

breyta
  • Saga Jóns Espólíns hins fróða. Kaupmannahöfn, 1895.
  • „Oddgeir Stephensen. Sunnanfari, 2. árgangur, 4. tbl“.